Fara í efni
Verkmenntaskólinn á Akureyri

Kvennalið Þórs fer á Krókinn í bikarnum

Chloe Wilson og Maddie Sutton eiga eflaust eftir að takast á í bikarleik Þórs og Tindastóls í desember. Hér er Chloe í leik Þórs og B-liðs Njarðvíkur í haust og Maddie í Þórsbúningum í leik gegn Tindastóli á síðasta tímabili. Myndir: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Kvennalið Þórs í körfubolta mætir Tindastóli á Sauðárkróki í 16 liða úrslitum bikarkeppni kvenna í körfubolta, VÍS-bikarnum. Dregið var í 16 liða úrslitin í vikunni. Leikur Tindastóls og Þórs fer fram á Sauðárkróki sunnudaginn 14. desember. Karlalið Þórs féll úr leik eftir tap á móti Fjölni í 1. umferðinni og var því ekki í pottinum.

Þórsarar mæta Maddie Sutton

Viðureign Þórs og Tindastóls er auðvitað áhugaverð fyrir margra hluta sakir, fyrir utan að vera viðureign tveggja Norðurlandsliða. Þórsliðið er gjörbreytt frá því í fyrra og gaf eftir sæti sitt í Bónusdeildinni,efstu deild Íslandsmótsins. Liðið hefur á að skipa fjórum erlendum leikmönnum og hefur unnið þrjá mjög örugga sigra í 1. deildinni. Það verður því forvitnilegt að sjá hvar liðið stendur í samanburði við lið og leikmenn sem spila í deild ofar og fást í hverjum leik við mun erfiðari andstæðinga. 

Nokkuð hefur verið um að leikmenn frá Akureyri og Sauðárkróki fari á milli þessara félaga á undanförnum árum. Þegar hlé varð á útgerð kvennaliðs hjá Þór fyrir fáeinum árum spiluðu stelpur frá Þór með Tindastóli og stelpur frá Sauðárkróki hafa einnig spilað með Þórsliðinu í gegnum tíðina. Einn vinsælasti leikmaður Þórs á undanförnum árum, Maddie Sutton, kom til félagsins frá Tindastóli og er nú komin aftur á Krókinn með viðkomu í Ástralíu.  Tvær af öflugustu körfuknattleikskonum Bónusdeildarinnar, Maddie Sutton og Marta Hermida, eru í röðum Tindastóls. 

Tvær af þeim öflugustu í Bónusdeildinni

Marta Hermida hefur skorað að meðaltali 29,14 stig í sjö leikjum Tindastóls í Bónusdeildinni það sem af er leiktíðinni og er þar efst á lista yfir leikmenn deildarinnar. Hún er í 3. sæti á stoðsendingalistanum, hefur gefið 6,86 stoðsendingar að meðaltali í leik. Maddie Sutton er efst á frákastalista deildarinnar, hefur tekið 15,14 fráköst að meðaltali í sjö leikjum, er í 6.-8. sæti á stoðsendingarlistanum með sex stoðsendingar að meðaltali í leik, og efst á lista yfir framlag með 34 framlagspunkta. Þar er Marta Hermida líka skammt untan með 28 puntka í 2.-5. sætinu.

Eftir þrjá leiki Þórs í 1. deildinni er Chloe Wilson í 2. sæti stigalistans með 28,33 stig að meðaltali í leik og í 2. sæti frákastalistans með að meðaltali 18 fráköst í leik. Iho Lopez er 5. sæti með 15 fráköst.

Viðureignir 16 liða úrslita VÍS-bikars kvenna: