Var 62 böll að vinna fyrir trommusettinu

TÓNDÆMI – 23
Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _
Rafn Sveinsson tónlistarmaður hlaut heiðursviðurkenningu Akureyrarbæjar á árlegri Vorkomu bæjarins í síðustu viku, fyrir vel unnin störf í þágu menningar og samfélagsins, ásamt Önnu Richardsdóttur og Þórarni Hjartarsyni. Upplagt er því að rifja að þessu sinni upp skemmtilega frásögn Rafns af trommusetti sem hann notaði í aldarfjórðung. Sá sem þetta skrifar ræddi við Rafn í tilefni sýningarinnar Tónlistarbærinn Akureyri sem opnuð var upp í Minjasafninu á Akureyri sumarið 2020.
Ætlarðu að spila þig í gegnum lífið?
Þegar Rabbi Sveins, eins og hann er gjarnan kallaður, keypti sér Premier trommusett árið 1962 gekk hann á fund Jóns Sólnes, útibússtjóra Landsbankans á Akureyri, í þeirri von að fá lán fyrir kaupunum. „Jón spurði mig hvað ég ætlaði að gera við þessa peninga. Þegar ég sagðist ætla að kaupa trommusett kom á hann. Ég lána þér ekki fyrir því; heldurðu að þú getir spilað þig í gegnum lífið? spurði Jón en lítið varð um svör hjá mér,“ segir Rafn.
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri veitir Rafni Sveinssyni heiðursviðurkenningu Akureyrarbæjar á Vorkomunni í síðustu viku. Mynd: Rakel Hinriksdóttir
Hljóðfæri voru afar dýr á þessum tíma. Hljóðfæraverslun Paul Bernburg í Reykjavík bauð kaupendum að dreifa greiðslum í allt að tvö ár og svo fór að Rafn nýtti sér þann möguleika. „Ég keypti mér trommusett og Gunnar vinur minn Tryggvason, sem var með í för, keypti sér gítar. Ég hefði því getað sagt Jóni mörgum árum seinna að ég hefði í raun spilað mig í gegnum lífið! Og haft af því ómælda ánægju.“
Notaði trommurnar á 1.322 dansleikjum
Trommusettið keypti Rafn 21. janúar 1962 fyrir 37.000 krónur og notaði í fyrsta skipti á dansleik í Freyvangi 9. febrúar. Hann fékk 600 krónur í laun fyrir vinnu sína það kvöld. Miðað við þá upphæð tók það Rafn 62 dansleiki að borga fyrir hljóðfærið.
Rafn notaði trommurnar á alls 1.322 dansleikjum, þeim síðasta í Laugarborg í Eyjafirði 27. desember 1987 og þáði þá 8.000 krónur í laun. Þegar gamla trommusettið var orðið lúið og Rafni fannst ástæða til þess að kaupa nýtt, rölti hann í Tónabúðina og fjárfesti á nýjan leik. „Ég var tvö kvöld að vinna fyrir því trommusetti. Munurinn var því ansi mikill, enda hljóðfæri ekki lengur tolluð í lúxusflokk,“ segir Rafn.
Samtals rúm 2 ár við trommusettið
Rafn hefur skrifað hjá sér hverja einustu æfingu og dans leik sem hann hefur tekið þátt í, frá því han byrjaði í tónlistinni um 1960, auk þess hvar hljómsveitin lék og hve mikið hljóðfæraleikararnir fengu borgað. „Böll og aðrar uppá komur sem ég hef komið fram á eru að nálgast 2 þúsund. Ef gert er ráð fyrir að hvert ball taki um 5 klukkutíma og hljómsveitin hafi æft tvisvar í vikunni á undan má gera ráð fyrir, ef tíminn yrði lagður saman, að samtals hafi ég verið í liðlega 2 ár á æfingum og böllum!“