Fara í efni
Tónatröð

Leita lausna vegna aksturs hópbifreiða

Uppbygging hótela við Hafnarstræti og víðar kallar á bætt aðgengi hópferðabifreiða. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Eftir ábendingar um ónæði af völdum hópbifreiða í Innbæ Akureyrar og ábendingar rekstraraðila hópbifreiða um skort á aðstöðu hafa fulltrúar Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og sviðsstjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar leitað saman leiða til að leysa þær áskoranir sem tengjast umferð hópbifreiða innan bæjarmarkanna. Skipulagsráð hefur falið skilpulagsfulltrúa að hefja vinnu við gerð skipulags fyrir umferð hópbifreiða innan bæjarins í samvinnu við SAF og umhverfis- og mannvirkjasvið bæjarins.

Í bréfi SAF til Akureyrarbæjar kemur fram að undanfarið hafi borist ábendingar um að akstur hópbifreiða um Innbæinn á Akureyri valdi ónæði á vissum tímum, en jafnframt hafi rekstraraðilar hópbifreiða bent á skort á aðstöðu við lestun og losun farþega og farangurs. Meðal hugmynda sem viðraðar eru má nefna að ekki sé ekið um Oddeyrargötuna og aðeins niður gilið, ekki upp.

Friðbjarnarhús, Nonnahús og Minjasafnið á Akureyri. Staðsetning safna í Innbænum gerir umferð hópbifreiða um svæðið að einhverju leyti nauðsynlega að mati Samtaka ferðaþjónustunnar. Myndir: Haraldur Ingólfsson.

„Í og við innbæinn á Akureyri er talsvert af söfnum og öðru sem tengjast bæjarferðum sem gerir umferð hópbifreiða um svæðið að einhverju leyti nauðsynlega. Mikið af gistirými er í og við miðbæ Akureyrar sem hefur skapað vandræði við lestun og losun að morgni. Einnig er talsverð uppbygging á gistirými fyrirhuguð sem þarf þjónustu hópbifreiða,“ segir meðal annars í erindi SAF. Þar er einnig komið á framfæri tillögum og ábendingum um skipulag á flæði umferðar hópbifreiða og sleppivasa víðsvegar um bæinn.

Innbæingar hafa oft tjáð sig í athugasemdakerfum og víðar þegar fjallað er um umferð hópbifreiða um Innbæinn og eru einróma um að hún sé alltof mikil. En söfnin eru þar sem þau eru og umferð hópbifreiða um svæðið að einhverju leyti nauðsynleg, eins og segir í bréfinu. Ekki kemur fram í punktum SAF neitt um breytingu eða aðgerðir til að draga úr þeirri umferð.

Bent er á nokkra staði þar sem þörf er á svokölluðum sleppivösum fyrir hópbifreiðar, meðal annars framan við Subway í Kaupvangsstræti 1 og við Hótel Norðurland i Geislagötu. Myndir: Haraldur Ingólfsson.

Afmarka akstursleiðir og fjölga sleppivösum

Ábendingar SAF um hvar þurfi að gera úrbætur og hvernig best er að haga umferð hópbifreiða um bæinn eru settar fram í punktaformi sem hugmyndin er að skipulagssvið Akureyrarbæjar geti unnið með, en jafnframt mættu tveir fulltrúar SAF og einn frá SBA-Norðurleið á fund skipulagsráðs í liðinni viku.

Á þessari mynd má sjá helstu staði og leiðir sem tengjast umferð hópbifreiða um bæinn og hvar úrbóta er þörf að mati SAF. Skjáskot úr bréfi SAF til Akureyrarbæjar.

Ábendingar í erindi SAF um úrbætur eru eftirfarandi:

  • Leitast þarf við að afmarka akstur um miðbæ Akureyrar, Glerárgötu, Þórunnarstræti og Miðhúsabraut
  • Aka aðeins niður Gilið/Kaupvangsstræti að hótel KEA (ekki upp)
  • Ekki keyra upp Oddeyrargötu
  • Útbúa þarf sleppivasa við Kaupvangsstræti 1. Þar er mjög lítið pláss og erfitt að koma stórum bílum fyrir
  • Útbúa þarf sleppivasa við Torfunefsbryggju
  • Útbúa þarf sleppivasa við Hof
  • Útbúa þarf sleppivasa ofan Akureyrarkirkju, neðan við gömlu kartöflugeymslurnar.
  • Útbúa þarf aðstöðu til að stunda hringakstur og stæði neðan við Leikhúsið. Í dag er ekki hægt að snúa rútu við þar
  • Laga þarf göngustíg inn í Lystigarðinn sunnan við sleppivasa. Eldra fólk á erfitt með að ganga brattan malarstíg
  • Setja þarf „bannað að leggja“ í Gránufélagsgötu neðan Hjalteyrargötu að Tangarbryggju
  • Þörf er fyrir sleppistæði nálægt Hótel Akureyri í Hafnarstræti, Hótel Norðurland í Geislagötu og önnur gistihús í miðbænum.
  • Útbúa þarf næturstæði fyrir hópbifreiðar sem hægt er nýta að vetri til. Það stæði sem mælt er með í dag er of langt frá miðbænum þar sem það tekur um 15-17 mín að ganga og er ekki heppilegt fyrir bílstjóra í öllum veðrum og aðstæðum

Malarstígur frá sleppivasa við Þórunnarstræti niður í Lystigarðinn er of brattur að sögn og á eldra fólk erfitt með að ganga hann. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, B-lista, lagði fram bókun á fundi skipulagsráðs þar sem hún benti á að fulltrúar Framsóknarflokksins hafi lagt fram tillögu í bæjarstjórn um heildarendurskoðun á bílastæðamálum á miðbæjarsvæðinu til að tryggja næg bílastæði og gott flæði fyrir rútubifreiðar. Þeirri tillögu hafi verið hafnað, en erindi SAF sýni að sú vinna sé nauðsynleg.

Þá bendir Sunna Hlín einnig á að skilgreina þurfi svæði í A og B flokka í samþykkt um bifreiðasjóð Akureyrarbæjar svo hægt sé að taka á lagningu tækja og bifreiða í götum sem samræmast ekki samþykkt, sér í lagi á álagsstöðum í ferðaþjónustu.

Samtök ferðaþjónustunnar telja þörf á að leyfa hringakstur inn og út af þessu bílastæði neðan við Samkomuhúsið. Hér geta hópbifreiðar ekki snúið við. Mynd: Haraldur Ingólfsson.