Fara í efni
Þór/KA

SA vann í bráðabana í Toppdeild kvenna

Sarah Smiley stýrði liði SA í leik dagsins gegn SR þar sem Sheldon Reasbeck, sem er þjálfari beggja meistaraflokksliða SA, er staddur í Litháen með karlaliðinu sem tekur þátt í Continental Cup. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

Kvennalið SA vann SR eftir framlengingu og bráðabana í vítakeppni í Toppdeild kvenna í íshokkí í dag. Kolbrún Björnsdóttir skoraði mark SA og Silvía Rán Björgvinsdóttir kláraði vítakeppnina og tryggði aukastigið. 

Ekkert var skorað í fyrstu lotunni, en Ragnhildur Kjartansdóttir náði forystunni fyrir SR snemma í annarri lotu. Þrátt fyrir ákafar tilraunir og fjölda markskota SA virtust SR-ingar ætla að ná að halda út leikinn með 1-0 forystu. Þegar upp var staðið hafði SA átt meira en tvöfalt fleiri skot á mark en SR, 42 skot á móti 20, en Julianna Thomson var með tæplega 98% markvörslu fyrir SR.

Það var það ekki fyrr en innan við þrjár mínútur voru eftir af leiknum sem Kolbrúnu Björnsdóttur tókst loks að jafna í 1-1 og það voru lökatölur eftir 60 mínútna leik. SA hafði þá tekið leikhlé þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka og um 40 sekúndum eftir að leikur hófst að nýju kom jöfnunarmarkið.

Ekkert var skorað í framlengingunni og því gripið til vítakeppni. Fyrst taka fimm leikmenn vítaskot, en í íshokkí eru víti tekin með því að leikmaður spilar frá miðju og tekst á við markvörðinn. Þegar upp var staðið hafði Shawlee Gaudreault varið fimm sinnum í marki SA, en Julianna Thopmson varði fjögur í marki SR. Silvía Rán Björgvinsdóttir náði forystunni fyrir SA eftir að báðir markverðir höfðu varið tvisvar sinnum, en Berglind Rós Leifsdóttir jafnaði úr fjórða víti SR. Næsta víti fór forgörðum hjá báðum liðum, staðan 1-1 og komið að bráðabana. Þar varði Shawlee einu sinni enn og að lokum var það Silvía Rán Björgvinsdóttir sem mætti aftur út á svellið og skoraði í annað skipti, tryggði SA 2-1 sigur og aukastigið.

SR

Mörk/stoðsendingar: Ragnhildur Kjartansdóttir 1/0.
Varin skot: Julianna Thomson 41 (97,6%). 
Refsimínútur: 2.

SA 

Mörk/stoðsendingar: Kolbrún Björnsdóttir 1/0, Anna Sonja Ágústsdóttir 0/1, Eyrún Garðarsdóttir 0/1.
Varin skot: Shawlee Gaudreault 19 (95%).
Refsimínútur: 2.

Liðin þrjú í deildinni hafa nú öll leiki ð fjóra leiki. SA er á toppnum með 11 stig, þá SR með sjö og Fjölnir án stiga.

Leikskýrslan (bein atvikalýsing)

Staðan í deildinni.

Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambands Íslands - sjá hér. Hér að neðan er síðan einnig hægt að fara beint inn á mörkin og vítakeppnina.

1-0 - Ragnhildur Kjartansdóttir (33:04).

Ragnhildur vinnur pökkinn af varnarmanni SA aftan við markið og skorar, án stoðsendingar.

1-1 - Kolbrún Björnsdóttir (57:23). Stoðsendingar: Anna Sonja Ágústsdóttir og Eyrún Garðarsdóttir.

SA tók leikhlé og vann síðan pökkinn eftir dómarakast þegar leikur hófst að nýju. Á endanum barst pökkurinn til Kolbrúnar sem skautaði með hann í hringi hægra megin og fyrir utan, reyndi að lokum skot sem gildi á ótrúlegan hátt í gegnum þrjá varnarmenn og framhjá markverði SR. 

Vítakeppnin: