Fara í efni
Þór

„Vissi allan tímann að við myndum vinna“

Eva Wium Elíasdóttir í viðtali við RÚV eftir leikinn í kvöld.

Þórsarar voru vitaskuld í sjöunda himni eftir glæsilegan sigur á Grindvíkingum í kvöld, sem tryggði þeim sæti í úrslitaleik bikarkeppni kvenna í körfubolta. Sú viðureign, gegn liði Keflavíkur, verður í Laugardalshöllinni klukkan 19.00 á laugardagskvöldið.

Eva Wium Elíasdóttir er þekkt fyrir að berjast eins og ljón og engin undantekning var á því í kvöld. Hún nefndi einmitt við Akureyri.net að þegar lið er talið það litla í viðureign sem þessari skipti miklu máli hvernig menn mæti til leiks.

„Við börðumst allan tímann. Grindvíkingar eru góðir í körfubolta og við erum líka góðar í körfubolta svo við vissum að það yrði baráttan sem skipti mestu máli,“ sagði Eva.

Hún nefndi líka stemninguna í stuðningsmönnum Þórs í kvöld. Þeir voru eðlilega mun færri en Grindvíkingar en létu sitt sannarlega ekki eftir liggja. „Þetta stuðningsfólk er svo geggjað – og liðið líka. Ég elska þessa Þórsfjölskyldu.“

Spurð hvort hún hefði einhvern tíma orðið hrædd um að Þór myndi tapað niður forskotinu sem liðið náði í frábærum 2. leikhluta stóð ekki á svari hjá Evu:

„Nei, alls ekki. Ég var með góða tilfinningu allan leikinn. Ég vissi allan tímann við værum að fara að vinnan þennan leik.“

Leikurinn í Smáranum góð æfing!

Heiða Hlín Björnsdóttir, fyrirliði Þórsliðsins, tók í sama streng og Eva. „Það var baráttan sem skipti mestu máli. Við mættum bandbrjálaðar í leikinn og héldum út allan tímann. Það er karakterinn í liðinu sem kom okkur í úrslitaleikinn,“ sagði hún.

Fyrirliðinn hrósaði líka áhorfendum. „Þessir stuðningsmenn okkar eru ótrúlegir, mér fannst heyrast miklu meira í þeim en næstum því öllum Grindavíkurbæ! Þetta er geggjað fólk, bæði þeir sem komu að norðan og þeir sem búa í bænum og komu og studdu okkur.“

Heiða sagði að barátta Þórsara hefði verið meiri og hafði á tilfinningunni að hún og samherjarnir hefðu hreinlega verið tilbúnari í baráttuna. „Mögulega vanmátu þær okkur eitthvað og það er þá auðvitað okkur í hag.“

Þórsarar hafa tapað tvisvar fyrir Grindvíkingum í deildinni í vetur, fyrst með 30 stiga mun í Smáranum í Kópavogi, í fyrsta leik Grindvíkinga eftir að íbúarnir urðu að flytja burt vegna jarðskjálfta. Seinni leikinn unnu Grindvíkingar með 13 stiga mun á Akureyri.

Heiða var spurð hvort leikurinn í Smáranum hefði ef til vill, eftir á að hyggja, verið góð æfing fyrir leikinn í kvöld.

„Já, hann var fullkomin æfing! Eftir hann vorum við tilbúnar í öll lætin frá Grindvíkingum hér í kvöld.“

Frábært lið

„Liðið okkar er frábært,“ sagði Maddie Sutton og var fljót að bæta við: „Og það eru áhorfendurnir okkar líka! Við vissum að til að vinna yrðum við að vera mjög kraftmiklar, leggja áherslu á að spila sem ein góð heild, og að hafa gaman. Við höfum mætt þessu liði áður og útkoman ekki verið góð en við vorum samt handvissar að ef við næðum að spila eins vel og við getum þá gætum við unnið. Og það gerðum við!“

Einkenni Þórs skein í gegn

„Ég held að stemningin í liðinu hafi skipt mestu máli,“ sagði Daníel Andri Halldórsson þjálfari Þórsliðsins.

Þjálfarinn kvaðst ekki hafa verið viss um að leikmenn hans yrðu jafn tilbúnir og raun bar vitni, til að sýna bestu hliðarnar á þessu stóra sviði. „En einkenni Þórsliðsins skein í gegn; að berjast meira en hitt liðið, að taka meira á þeim en þær á okkur. Þær urðu frekar litlar snemma í leiknum og við nýttum okkur það.“

Daníel sagðist hafa verið viss um að Grindvíkingar yrðu mjög grimmir í varnarleiknum og því yrði mikilvægt að leikmenn hans létu boltann ganga hratt og vel og vinna vel saman; miklu skipti að liðsheildin yrði góð og það hafi sannarlega tekist.

Spurður hvort hann hefði verið smeykur um að Grindvíkingar næðu að vinna upp muninn í seinni hálfleik kvaðst Daníel vissulega alltaf svolítið smeykur gegn svo gríðarlegu sterki sóknarliði, „en þessar stelpur mínar hafa unnið Benfica og Keflavík á alls konar sviðum! Nú fögnum við bara í kvöld og byrjun strax á morgun að búa okkur undir Keflvíkinga.“