Fara í efni
Þór

Tómas frábær í markinu og Þór vann KA-strákana

Tómas Ingi Gunnarsson var frábær í Þórsmarkinu í gær. Hér ver hann frá Arnóri Ísak Haddssyni sem brunaði fram í hraðaupphlaupi. Sama atvik og á neðstu myndinni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór sigraði ungmannalið KA 35:31 í gærkvöldi í Grill66 deildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Þetta var heimaleikur Þórs og fór því fram í Íþróttahöllinni. Áhorfendur voru fjölmargir.

Markvörður Þórs, Tómas Ingi Gunnarsson, reyndist gestunum erfiður og var valinn maður leiksins. Hann varði hvorki fleiri né færri en 24 skot – um 45% skota sem hann fékk á sig – og það gerði gæfumuninn.

Þórsarar höfðu frumkvæðið frá byrjun, KA-menn jöfnuðu í tvígang, en heimamenn komust yfir á ný og létu forskotið aldrei af hendi. Staðan var 16:13 í hálfleik og munurinn varð mestur sjö mörk, 29:22, þegar rúmar 10 mínútur voru eftir.

Ungmennalið Fram er efst í deildinni með 20 stig en Þór með 15. Bæði hafa lokið 11 leikjum. Þórsarar eru efstir í baráttunni um sæti í efstu deild Íslandsmótsins, Olís næsta vetur, því ungmennalið félaga geta ekki færst upp um deild.

Fjölnir og ÍR eru stigi á eftir Þór og Hörður með 11 stig. Tvö þau síðarnefndu eiga leik til góða. Aðeins þessi fjögur lið eiga möguleika á að komast upp í Olís deildina, öll hin eru ungmennalið félaga sem leika í efstu deild.

Þór og Fjölnir eiga sjö leiki eftir, ÍR og Hörður átta leiki.

Mörk Þórs: Aron Hólm Kristjánsson 9, Brynjar Hólm Grétarsson 6, Sigurður Ringsted Sigurðsson 6, Jón Ólafur Þorsteinsson 5, Garðar Már Jónsson 2, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Sveinn Aron Sveinsson 2, Þormar Sigurðsson 2, Friðrik Svavarsson 1.

Varin skot: Tómas Ingi Gunnarsson 24, Kristján Páll Steinsson 2 (samtals 45,6%).

Mörk KA U: Arnór Ísak Haddsson 11, Dagur Árni Heimisson 7, Jónsteinn Helgi Þórsson 5, Logi Gautason 4, Magnús Dagur Jónatansson 2, Leó Friðriksson 1, Jóhann Bjarki Hauksson 1,

Varin skot: Óskar Þórarinsson 11, Úlfar Örn Guðbjargarson 2 (samtals 27,1%).

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni.

Aron Hólm Kristjánsson gerði níu mörk fyrir Þórsliðið í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Arnór Ísak Haddsson gerði 11 mörk fyrir KA. Til vinstri er Sveinn Aron Sveinsson, nýr leikmaður Þórsara. Tilkynnt var um komu hans til félagsins í gær. Sveinn Aron, sem er örvhentur og leikur í hægra horninu, er fyrrverandi leikmaður Vals, Selfoss og Kórdrengja.

Tómas Ingi Gunnarsson var frábær í Þórsmarkinu í gær. Hér ver hann frá Arnóri Ísak Haddssyni úr dauðafæri – eitt 24 skota sem hann varði í leiknum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson