Fara í efni
Þór

Þórsstelpurnar með enn einn stórsigurinn

Emma Karólína Snæbjarnardóttir sendir á Chloe Wilson, sem var stigahæst í Þórsliðinu í kvöld eins og oftast áður. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesosn.

Kvennalið Þórs í körfubolta vann auðveldan sigur á liði KV í 1. deildinni í kvöld. Lokatölur 102-43 og sjötti sigurinn í sex leikjum staðreynd. Chloe Wilson var eins og oftast áður stigahæst í Þórsliðinu með 27 stig. Þrjár skoruðu bæði meira en tíu stig og tóku fleiri en tíu fráköst, Iho Lopez tók 17 fráköst, Chloe Wilson 13 og Yvette Adriaans 12.

Það varð ljóst fljótlega eftir að leikurinn hófst að hann yrði aldrei spennandi enda voru liðin tvö í efsta og næstneðsta sæti deildarinnar fyrir leikinn, gestirnir án sigurs í fyrstu sjö leikjum sínum. Þórsstelpurnar skoruðu fyrstu sjö stigin áður en gestirnir úr KV komust á blað og munurinn orðinn 19 stig þegar leið á fyrsta leikhlutann, 21-2, áður en önnur karfa KV leit dagsins ljós.

Yvette Adriaans skoraði 15 stig, tók 12 fráköst og átti fimm stoðsendingar. Liðsfélagi hennar, Iho Lopez, skoraði 16 stig, tók 17 fráköst og átti tvær stoðsendingar. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Raunar er hægt að lýsa öðrum leikhlutanum eins, fyrstu tíu stigin voru Þórsara og staðan orðin 33-4 áður en leikhlutinn var hálfnaður og áður en þriðja karfa KV kom. Forysta Þórs var 35 stig eftir fyrri hálfleikinn. Seinni hálfleikurinn var á sömu nótum, Þór vann þriðja leikhlutann með 14 stiga mun og þann fjórða með tíu stiga mun. 

Ekki mikið meira um leikinn að segja í sjálfu sér, Þórsliðið mun betra á öllum sviðum og 59 stiga sigur niðurstaðan.

Þór - KV (23-4) (30-14) 53-18 (25-11) (24-14) 102-43

Helstu tölur Þórsliðsins, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Chloe Wilson 27/13/6 - 39 framlagspunktar
  • Yvette Adriaans 15/12/5
  • Iho Lopez 16/17/2
  • Emilie Ravn 11/6/2
  • Sigurlaug Eva Jónasdóttir 8/3/5
  • Hjörtfríður Óðinsdóttir 8/0/1
  • María Sól Helgadóttir 0/2/1

Stigahæst gestanna var þjálfarinn og fyrirliðinn Elfa Falsdóttir með 12 stig.

Tölfræði leiksins.

Staðan í deildinni.

Þór er áfram í efsta sæti deildarinnar, en liðið hefur unnið sex fyrstu leiki sína í vetur, flesta með miklum yfirburðum. Eins og kunnugt er afsalaði Þór sér sæti sínu í efstu deild og óskaði eftir að spila í 1. deildinni í vetur. Hamar/Þór tók sæti Þórsara í Bónusdeildinni. Þórsliðið hefur skorað að meðaltali 96 stig í leik og unnið leikina að meðaltali með rúmlega 40 stiga mun. Á sama tíma hefur lið Hamars/Þórs tapað fyrstu sjö leikjum sínum í Bónusdeildinni, en þó að meðaltali ekki nema með 13,6 stiga mun.

Með þessa tölfræði í huga er ekki ólíklegt að þjálfarar í 1. deildinni spyrji sig af hverju Þór afsalaði sér sætinu í efstu deild og spilar svo með að því er virðist yfirburðalið í 1. deildinni.