Fara í efni
Þór

Þór tapaði naumlega fyrir Val á Hlíðarenda

Lore Devos, til vinstri, og Hrefna Ottósdóttir gerðu báðar 18 stig fyrir Þór í kvöld. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór tapaði naumlega fyrir Íslandsmeisturum Vals í kvöld, 75:73, í Subway deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í körfubolta. Liðin mættust í Origo höll Vals að Hlíðarenda.

  • Skorið eftir leikhlutum: 24:18 – 19:19 – (43-37) – 19:11 – 13:25 – 75:73

Þórsstelpurnar byrjuðu mjög vel en meistararnir komust fljótlega skrefi fram úr og að loknum fyrri hálfleik voru þeir sex stigum yfir.

Segja má að afleitur þriðji leikhluti hafi orðið Þórsurum að falli, þær hittu þá illa en heimamenn héldu sínu striki og náðu mest 19 stiga forystu. Stelpurnar okkar náðu reyndar að minnka muninn niður í 14 stig áður en þriðji leikhluti var úti með góðum endaspretti og sá sprettur hélt áfram í fjórða leikhluta; Þórsliðið komst í mikinn ham, minnkaði muninn jafnt og þétt og Hrefna Ottósdóttir jafnaði metin, 73:73, með þriggja stiga skoti þegar sjö sekúndur voru eftir.

Valur tók leikhlé og náði að skora eftir vel útfært leikkerfi, 75:73, þegar 0,9 sekúndur voru eftir. Daníel Andri þjálfari Þórs brást við með því að taka einnig leikhlé, Þór náði skoti áður en lokaflautið gall en boltinn fór því miður ekki ofan í körfuhringinn.

Þórsliðið lék afbragðsvel lungann úr leiknum. Slakur þriðji leikhluti skipti sköpum sem fyrr segir en með miklum vilja, frábærri baráttu og góðri spilamennsku í lokahlutanum voru Þórsstelpurnar aðeins hársbreidd frá því að sigra Íslandsmeistarana.

Hrefna Ottósdóttir og Lore Devos skoruðu mest fyrir Þór, 18 stig hvor; Hrefna öll 18 stigin úr þriggja stiga skotum. Maddie Sutton var gríðarlega sterk undir körfunni að vanda og tók 16 fráköst og leikstjórnandinn, Eva Wium Elíasdóttir, lék mjög vel og gaf hvorki meira né minna en 12 stoðsendingar.

Stig/fráköst/stoðsendingar Þórsara:

Lore Devos 18/9/4, Hrefna Ottósdóttir 18/6/0, Maddie Sutton 16/16/6, Eva Wium Elíasdóttir 12/2/12, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 5/2/0, Jovanka Ljubetic 3/2/1.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði leiksins