Fara í efni
Þór

Þór náði sér ekki á strik og tapaði fyrir Fjölni

Raqu­el Lan­eiro var frábær í sóknarleik Fjölnis í kvöld; hér náði hún boltanum sekúndubroti á undan Maddie Sutton, sem lagði sig þó alla fram í þeirri baráttu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór tapaði fyrir Fjölni á heimavelli í kvöld, 79:70, í B-hluta efstu deildar kvenna í körfubolta. Þórsarar voru með 16 stig fyrir leikinn en Fjölnismenn aðeins fjögur þannig að tapið kemur nokkuð á óvart.

  • Skorið eftir leikhlutum: 20:14 – 14:17 – 34:31 – 23:26 – 13:22 – 70:79

Þór byrjaði leik­inn bet­ur eins og sjá má á tölunum. Viðureignin var í jafnvægi lengi vel og hnífjafnt var eftir þriðja leikhlutann, 57:57. Í þeim fjórða og síðasta voru gestirnir miklu ákveðnari og gerðu níu stigum meira en Þórsarar.

Þetta var aðeins þriðji sigur Fjölnis í deildinni í vetur en því er ekki að leyna að liðið hefur mjög góða erlenda leikmenn í sínum röðum og þeir reyndust Þórsurum erfiðir. Leikstjórnandinn Raquel Laneiro er frábær skytta sem þarf varla nema sekúndubrot til þess að stilla miðið. Hún gerði 27 stig og gaf að auki 11 stoðsendingar. Kor­inne Camp­bell átti einnig stór­leik fyr­ir Fjölni, skoraði 31 stig og tók 14 frá­köst.

Lore Devos var atkvæðamest hjá Þór, gerði 20 stig og tók níu fráköst. Eva Wium Elíasdóttir gerði 18 stig.

Þórsliðið olli vonbrigðum í kvöld. Liðið hefur oft sýnt hve mikið býr í því en liðsheildin var óvenju ósamstillt að þessu sinni.

Þórsstelpurnar eru því eftir sem áður með 16 stig, Valur náði 16 stigum í kvöld með sigri á liði Snæfells, sem er neðst með 4 stig en Fjölnir fór í 6 stig. Þrjú þessara fjögurra liða fara í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn ásamt þremur efstu sætum A-hlutans.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.