Fara í efni
Þór

„Sigurskiptingar“ og KA fékk öll stigin þrjú

Dagur Ingi Valsson fagnaði að vonum innilega eftir að hann gerði eina mark leiksins gegn ÍBV í dag. Myndir: Ármann Hinrik

KA-menn unnu afar mikilvægan 1:0 sigur á Vestmannaeyingum á heimavelli í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Það var Dagur Ingi Valsson sem gerði markið dýrmæta fimm mínútum fyrir leikslok, skömmu eftir að hann kom inn á.

KA fór þar með einu stigi upp fyrir mótherja dagsins; liðið er í sjöunda sæti með 22 stig en ÍBV er með 21. KA er nú aðeins þremur stigum á eftir Fram, sem tapaði á Ísafirði. Fram er í sjötta sætinu eftirsótta – því síðasta í efri hluta deildarinnar. Fjórir leikir eru eftir áður en deildinni verður skipt í tvennt, og því 12 stig í pottinum.

Það mikilvægasta þegar upp er staðið á leikdegi er að hafa sigrað. Það sem gleður þjálfara hugsanlega næst mest er þegar varamaður sem settur er inná hefur áhrif á leikinn og miðað við þá kenningu hlýtur Hallgrímur Jónasson þjálfari KA að fara skælbrosandi á koddann í kvöld. Það var nefnilega ekki bara einn varamaður sem skipti máli og ekki tveir, heldur þrír! 
_ _ _

„SIGURSKIPTINGARNAR“ OG MARKIÐ!
Þegar tæpar 84 mínútur voru liðnar af leiknum komu Viðar Örn Kjartansson og Dagur Ingi Valsson inná völlinn í stað Birnis Snæs Ingasonar og Jóan Símun Edmundsson. Nokkru áður hafði Ingimar Torbjörnsson Stöle leyst Ásgeir Sigurgeirsson af hólmi og það voru „skytturnar þrjár“ – þessir þrír varamenn – sem voru mennirnir á bak við markið ásamt bakverðinum sókndjarfa, Birgi Baldvinssyni.

Eftir að KA-menn höfðu haldið boltanum góða stund sendi Hallgrímur Mar Steingrímsson á Ingimar sem var utan við vítateig, hann  komst inn á teiginn hægra megin, framhjá varnarmanni og sending hans fyrir markið var hárnákvæm. Viðar Örn skallaði boltann sem fór í þverslána og þaðan niður í markteiginn, Birgir Baldvinsson var sekúndubroti á undan Viðari Erni og varnarmanninum Birgi Ómari Hlynssyni að boltanum, skaut að marki og Dagur Ingi rak smiðshöggið á sóknina með því að koma boltanum yfir marklínuna af nokkurra sentimetra færi!

Hér má sjá frábæra myndasyrpu Ármanns Hinriks af markinu – og af skiptingunum auðvitað!

„Þú leikur svo inn í teig, gefur fyrir og ...“ Hallgrímur Jónasson þjálfari KA gefur Ingimari Stöle fyrirmæli áður en hann kemur inn á þegar um það bil korter var eftir af leiknum.

Dagur Ingi Valsson og Viðar Örn Kjartansson kom inn á þegar um það bil sex mínútur voru eftir. Af velli fóru Birnir Snær Ingason (17) og Jóan Símun Edmundsson.




_ _ _

Það var með ólíkindum að staðan skyldi vera markalaus þegar fyrri hálfleik lauk því bæði lið fengu góð færi og KA-menn reyndar tvö dauðafæri; Ásgeir Sigurgeirsson fékk boltann fyrir opnu marki þegar rúmlega 15 mínútur voru liðnar en hitti hann ekki nógu vel og Hjörvar markvörður bjargaði með naumindum, og rúmlega hálftíma eftir að leikurinn hófst var bjargað á línu eftir skot Jóans Símun. Hjörvar varði þá skot Hallgríms Mars en hélt ekki boltanum, Færeyringurinn Jóan náði valdi á honum með laglegri snertingu og skaut en Hjörvar slæmdi hendi í boltann og varnarmaður spyrnti honum í burtu.

Sigur KA var sanngjarn, liðið var meira með boltann og fékk betri færi en Eyjamenn ógnuðu líka nokkrum sinnum. Þegar staðan er enn markalaus eða munurinn bara eitt mark má ekkert fara úrskeiðis til þess að illa geti farið en KA-menn búa svo vel að tefla fram Steinþóri Má Auðunssyni markverði; hann var öryggið uppmálað í dag, lék gríðarlega vel, og sá til þess að gestirnir spilltu ekki gleðinni.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni