Fara í efni
Þór

Sigur – og Sandra komin með 8 mörk í 4 leikjum!

Sandra María Jessen fagnar marki gegn FH um daginn. Hún gerði eitt í dag og hefur þar með gert átta mörk í fyrstu fjórum leikjum Bestu deildarinnar! Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA vann bikarmeistara Víkings 2:1 í Reykjavík í dag, í Bestu deild kvenna, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þetta var hörkuleikur tveggja góðra liða og þriðji sigur Stelpnanna okkar í röð; þær töpuðu fyrir Íslandsmeisturum Vals á útivelli í fyrstu umferð en hafa síðan fengu níu stig af jafn mörgum mögulegum.

Shaina Faiena Ashouri, sem spilaði nokkri leiki með Þór/KA sumarið 2021, skoraði fyrir Víking á fimmtu mínútu en Ísfold Marý Sigtryggsdóttir jafnaði eftir rúmlega stundarfjórðung með góðu skoti utan úr teig eftir sendingu frá Söndru Maríu Jessen utan af vinstri kanti.

Sé einhvers staðar hægt að veðja á það hvort Sandra María skori í deildarleik um þessar mundir er stuðullinn varla mjög hár. Líkurnar eru nefnilega svipaðar og á því að það snjói á Akureyri á veturna eða rigni í Reykjavík á sumrin ... 

Það var auðvitað Sandra María sem gerði sigurmarkið þegar hálftími var liðinn af leiknum með bylmingsskoti rétt utan vítateigs. Markvörður Víkinga átt ekki möguleika á að verja. Sandra fékk boltann eftir vandræðagang í vörn heimaliðsins og lét strax vaða á markið, með þessum prýðis árangri!

Tölfræði Söndru Maríu í deildinni til þessa er ótrúleg, í raun fáránleg. Hún hefur gert átta mörk í fjórum leikjum og hafði fyrir leikinn á Víkingsvellinum í dag gert öll mörk Þórs/KA í sumar. Ísfold Marý Tryggvadóttir braut upp það munstur í dag, skoraði annnað markið og gerði að gamni sínu í samtali við mbl.is eftir leik: „Ég er næst markahæst“

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Sandra María við Vísi„Persónulegt markmið að skora einu sinni á móti öllum liðum“

Um leikinn á fotbolti.net