Fara í efni
Þór

Litli snjóblásarinn reyndist vel á Þórsvelli

Viðar Marinósson vallarstjóri og litli snjóblásarinn eru öllu léttari en stórar vinnuvélar með snjóblásara sem hafa einhvern tíma verið notaðar þegar enn var mikið frost í jarðveginum. Viðar og blásarinn marka engin spor í svörðinn. Myndir af heimasíðu Þórs

Óvenjuleg sjón blasti við þegar fólk gekk framhjá íþróttasvæði Þórs í Glerárhverfi í vikunni. Þar rölti maður fram og til baka um aðal knattspyrnuvöll félagsins með lítinn snjóblásara á undan sér. Fjallað er um málið á heimasíðu Þórs og útskýrt hvers vegna svona var farið að.

„Það er vor í lofti. Vellir og tún eru að taka við sér, gróðurinn lifnar við og fólkið verður bjartsýnt,“ segir í upphafi frásagnarinnar og áfram er haldið:

„Ef til vill þætti einhverjum það einmitt merki um mikla bjartsýni að fara með lítinn heimilissnjóblásara, ef það er rétta hugtakið, fram og aftur á heilum fótboltavelli og blása burt snjó, eða að minnsta kosti að losa hann frá grassverðinum og blása upp í loftið. Þannig er bjartsýnin í Þorpinu þessa dagana.“

„Starfsmenn Þórs hafa undanfarna daga, eftir að byrjaði að hlána og volga vatnið fór að renna um pípurnar ofan í moldinni, verið á ferðinni fram og aftur eftir vellinum með snjóblásarann litla, losað um hjarnið og létt grasinu lífið, leyft því að anda, ef svo má segja.

Að ráði sérfræðinga þótti rétt að losa um hjarnið, flýta fyrir bráðnuninni sem fylgir velgjunni undir vellinum, og auðvelda sólarljósi og súrefni að ná ofan í grassvörðinn.“

Á heimasíðu Þórs má sjá fleiri myndir frá síðustu dögum. Einnig eru birtar myndir teknar á svipuðum árstíma fyrir nokkrum árum og gaman að bera saman við aðstæður nú. Smellið hér til að skoða.