Fara í efni
Þór

Langþráður leikur Þórs og KA 2. maí

Kristófer Kristjánsson og Ásgeir Sigurgeirsson í úrslitaleik Þórs og KA í Kjarnafæðismótinu, árlegu æfingamóti knattspyrnudómara vorið 2025. Ásgeir var með KA síðast þegar félögin mættust á Íslandsmóti - í september 2016. Kristófer var þá 12 ára. Hann er fæddur 2004, tveimur árum eftir að Þór og KA mættust síðast í efstu deild! Mynd: Ármann Hinrik

Fyrri leikur Þórs og KA í Bestu deildinni í knattspyrnu á komandi keppnistímabili verður á nýjum gervigrasvelli Þórs laugardaginn 2. maí skv. drögum að niðurröðun mótsins sem birt var í dag. Þá rennur upp stund sem margir hafa örugglega beðið spenntir eftir – og það lengi. Akureyrarfélögin hafa nefnilega ekki mæst í efstu deild Íslandsmótsins í tæpan aldarfjórðung! Síðasta innbyrðis viðureign þeirra í efstu deild var í ágúst árið 2002.

Samkvæmt drögunum hefst Besta deild karla með stórleik Víkings og Breiðabliks föstudagskvöldið 10. apríl og aðrir leikir verða tveimur dögum síðar.

Nýliðar Þórs eiga tvo fyrstu leikina á útivelli, gegn Val og KR, en KA-menn tvo fyrstu á heimavelli, gegn Stjörnunni og Íslandsmeisturum Víkings. Hér má sjá leiki Akureyrarliðanna í fyrstu umferðunum skv. drögunum: 

1. umferð, sunnudag 12. apríl

  • Valur - Þór
  • KA Stjarnan 

2. umferð, laugardag 18. apríl

  • KR - Þór
  • KA - Víkingur

3. umferð 

  • ÍA - KA 22. apríl
  • Þór - Fram 23. apríl
    (sumardagurinn fyrsti)

4. umferð

  • KA - Keflavík sunnud. 26. apríl
  • Breiðablik - Þór mánud. 27. apríl

5. umferð, laugardag 2. maí:

  • Þór - KA

22. umferðin, sú síðasta áður en deildinni verður skipt í tvennt, fer fram sunnudag 6. september og bæði Akureyrarliðin eiga þá heimaleik kl. 14.00.

  • Þór - FH 
  • KA - Breiðablik 

Úrklippa úr Morgunblaðinu eftir fyrri leik Akureyrarfélaganna sumarið 2002. KA-menn höfðu betur og það var sannarlega tímamótasigur; fyrsti sigur KA á Þór í efstu deild Íslandsmótsins í 14 tilraunum.

  • Akureyrarfélögin mættust síðast á Íslandsmóti fyrir tæpum áratug – 24. september 2016. Þau léku þá í næst efstu deild, Inkasso deildinni eins og hún nefndist þá. Leikurinn var á Þórsvellinum og KA-menn fögnuðu 3:0 sigri.
  • Tveir leikmenn sem eru með KA í dag voru í liðinu þann dag, Hallgrímur Mar Steingrímsson og Ásgeir Sigurgeirsson.
  • Markvörðurinn Aron Birkir Stefánsson, sem nú er fyrirliði Þórs, byrjaði á varamannabekknum en leysti Sandor Matus af hólmi og stóð í Þórsmarkinu síðasta hálftímann.
  • Félögin mættust síðast í efstu deild sumarið 2002, Símadeildinni eins og hún kallaðist. KA vann báða leikina 1:0, báða á Akureyrarvelli. Heimaleikur KA var 30. maí en heimaleikur Þórs 1. ágúst.
  • KA vann næst efstu deild 2016 og hefur verið í efstu deild síðan – næsta sumar verður það 10. í röð
  • Þór var síðast í efstu deild 2014 en mætir til leiks þar á ný í sumar eftir 12 ára bið.