Fara í efni
Þór

KA burstaði ÍA í síðasta heimaleiknum

KA nær forystu - 2:1. Hallgrímur Mar Steingrímsson laumaði sér fram fyrir varnarmann, eftir að Andri Fannar Stefánsson lyfti boltanum inn á teig, og lagði knöttinn snyrtilega í netið. Mynd: Ármann Hinrik.

KA fékk ÍA í heimsókn í síðasta heimaleik sínum í efstu deild karla í knattspyrnu þetta árið. Þrátt fyrir að mun meira væri í húfi hjá gestunum voru það KA-menn sem höfðu leikinn í hendi sér og unnu öruggan 5:1 sigur, í leik þar sem tvö af fallegustu mörkum sumarsins í deildinni litu dagsins ljós.

Skagamenn voru í vonlítilli stöðu á botni deildarinnar fyrir nokkrum vikum en eftir fimm sigurleiki í röð voru þeir komnir upp úr fallsæti. Þeir þurftu hins vegar nauðsynlega á ennþá fleiri stigum að halda til að gulltryggja sæti sitt í deildinni.  Að leik loknum kom hins vegar í ljós að ÍA er komið úr fallhættu en það atvikaðist vegna úrslita annarra leikja, því ekki var liðið nálægt því að ná einhverju úr leiknum við KA í dag.

Baldvin Þór Berndsen þrumar að marki KA langt fyrir utan teig snemma leiks í dag og boltinn hafnaði uppi í samskeytunum. Stórkostlegt mark. Myndir: Ármann Hinrik.

Skagamenn komust yfir með glæsimarki

Það voru hins vegar gestirnir sem byrjuðu betur í dag og strax á 7. mínútu kom Baldvin Þór Berndsen þeim yfir með stórkostlegu marki. Þrumuskot langt utan af velli beint upp í samskeytin. Eitt glæsilegasta mark ársins - en samt bara það næstfallegasta í leiknum!

Birgir Baldvinsson jafnaði tíu mínútum síðar þegar hann óð upp vinstra megin og komst auðveldlega framhjá sofandi varnarmönnum gestanna inn í teig, þar sem hann setti boltann örugglega framhjá markverðinum. Og varnarmenn ÍA voru ekki vaknaðir fjórum mínútum síðar þegar Andri Fannar Stefánsson lyfti boltanum inn á teig þar sem Hallgrímur Mar Steingrímsson laumaði sér fram fyrir varnarmann og lagði knöttinn snyrtilega í netið. Andri Fannar var í byrjunarliði KA í þessum leik og bar fyrirliðabandið - mögulega síðasti leikur hans fyrir félagið.

Akurnesingar reyndu hvað þeir gátu eftir þetta til að svara fyrir sig en KA-liðið var heilsteypt í dag, lék vel og gaf fá færi á sér. Rasheed í markinu þurfti að verja tvisvar fyrir hlé en annars var KA með öll tök á leiknum. Heimamenn gerðu síðan út um leikinn á 66. mínútu þegar Ingimar Torbjörnsson Stöle skoraði gott mark eftir flottan undirbúning Hallgríms og Bjarna Aðalsteinssonar.

Á síðustu 10 mínútunum bætti KA við tveimur mörkum. Ásgeir Sigurgeirsson skoraði eftir að Snorri Kristinsson lagði boltann snyrtilega fyrir fætur hans inni í teig Skagamanna. Snorri er aðeins 16 ára gamall og einn af ungu strákunum í KA sem eru farnir að banka á dyrnar hjá meistaraflokki.

Birgir Baldvinsson(2) jafnar fyrir KA, 10 mínútum eftir að Skagamenn komust yfir. Hann komst auðveldlega inn í vítateig, framhjá sofandi varnarmönnum og setti boltann örugglega framhjá markverðinum. Mynd: Ármann Hinrik

Hallgrímur Mar með glæsilegasta mark sumarsins

Það var við hæfi að besti maður vallarins ræki síðasta naglann í kistu Skagamanna í dag með fallegasta marki Íslandsmótsins í ár. Ingimar náði að pota boltanum af Skagamanni fyrir fætur Hallgríms, þar sem þeir voru staddir í miðjuboganum á eigin vallarhelmingi. Hallgrímur var snöggur að hugsa og þrumaði knettinum einfaldlega yfir allan völlinn, yfir Árna í markinu og í marknetið. Árni var vissulega fullframarlega í markinu en þó ekki svo að marktilraun væri borðliggjandi í stöðunni. En Hallgrímur hefur sýnt það áður að hann sér lengra en flestir og hefur hæfileikana til að gera það sem hann ætlar sér.

Glæsilegur 5:1 sigur í höfn og KA komst upp fyrir Eyjamenn í 7. sætið. Þessi lið mætast í Eyjum í lokaumferðinni og berjast um það hvort liðið hafnar í 7. og efsta sæti neðri hluta deildarinnar. Eyjamenn þurfa sigur, að öðrum kosti er 7. sætið KA-manna. 

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Fleiri myndir síðar