Fara í efni
Þór

Bikarmeistarar KA slegnir út – MYNDIR

Myndir: Ármann Hinrik

Bikarmeistarar KA í knattspyrnu verða að láta verðlaunagripinn af hendi í ágúst. Það varð ljóst í gærkvöld þegar KA-menn töpuðu á heimavelli fyrir Frömurum, 4:2, í 16-liða úrslitum keppninnar.

KA hafði aðeins tapað einum af síðustu 11 bikarleikjum, liðið lék til úrslita síðustu tvö ár og fagnaði sigri í fyrra en nú er ævintýrið á enda.

KA-menn hafa ekki verið sannfærandi í upphafi Íslandsmótsins og voru það ekki í gær. Eftir slæma byrjun á síðasta ári réttu þeir úr kútnum, voru þá þekktir fyrir öfluga liðsheild, sterkan varnarleik og baráttuanda en annað er upp á teningnum nú. 

Upphafsmínútur leiksins voru ótrúlegar; Fram fékk víti þegar tæpar tvær mínútur voru liðnar en Steinþór Már Auðunsson KA varði og Hallgrímur Mar Steingrímsson tók síðan forystuna fyrir KA með stórglæsilegu marki. Heimamenn náðu hins vegar ekki að fylgja því eftir, Framarar héldu boltanum án þess að ógna marki KA að ráði fyrr en á 21. mínutu og léu síðan kné fylgja kviði.

Ármann Hinrik var á Greifavelli KA í gærkvöldi með myndavélina.

Leikskýrslan

VÍTI EFTIR 2 MÍNÚTUR – „STUBBUR“ VER
Fram fékk víti þegar tæpar tvær mínútur voru liðnar. Róbert Hauksson komst inn fyrir vörnina, lék á markvörðinn yst í vítateignum og sveif yfir hann. Israel Garcia tók vítið en „Stubbur“ – eins og KA-menn kalla Steinþór Má Auðunsson – kastaði sér í rétt horn og varði spyrnuna.


_ _ _

STÓRGLÆSILEGT MARK HALLGRÍMS
Bakvörðurinn Guðjón Ernir Hrafnkelsson sendi boltann af vinstri kanti inn á vítateig á áttundu mínútu, Viðar Örn Kjartansson, átti þar í höggi við varnarmann, skallaði boltinn hátt í loft upp og þegar sá hnöttótti kom niður á ný  tók Hallgrímur Mar Steingrímsson vel á móti honum; Hallgrímur sneri baki í markið og skoraði með stórglæsilegri hjólhestaspyrnu úr miðjum vítateignum; „fór öfugan kollhnís“ eins og það er orðað í íslenskri nútímamálsorðabók á vef Árnastofnunar.

Staðan orðin 1:0 fyrir heimamenn og Hallgrímur gladdist eðlilega mjög, enda sannarlega ástæða til. Hann fagnaði með því að hlaupa í átt að áhorfendastúkunni og ekki var hægt að skilja handahreyfingar hans þá öðruvísi en sem kalda kveðju til fjölmiðlamanna í júdóherbergi félagsins aftan við stúkuna. Gott og vel; hann og fleiri eru e.t.v. ekki ánægðir með umfjöllun um liðið undanfarið en á móti verður að segja að KA hefur hreint ekki verið að spila vel. Hallgrímur hneigði sig síðan fyrir áhorfendum í stúkunni eins og oft áður.


_ _ _

GOTT SKOT – GÓÐ MARKVARSLA
KA-menn náðu ekki að fylgja glæsilegu marki Hallgríms eftir nema hvað Guðjón Ernir Hrafnkelsson náði boltanum aftan við miðju, tók á sprett og þrumaði að marki rétt utan vítateigs en Viktor Freyr Sigurðsson varði með tilþrifum. Fyrir utan það réðu Framarar ferðinni.


_ _ _

ÞRJÚ MÖRK FRAMARA
Í stað þess að hengja haus eftir að hafa klúðrað víti og fengið á sig mark voru það Framarar sem náðu frumkvæðinu eftir mark Hallgríms. Þeir sköpuðu nokkrum sinnum hættu næsta stundarfjórðunginn og jöfnuðu á 21. mínútu. Róbert Hauksson skoraði þá og hann var aftur á ferðinni á 34. mín. Kom Fram þá í 2:1.

Kyle McLagen gerði svo þriðja mark Fram á 43. mínútu – sjá myndir hér að neðan. Vuk Oskar Dimitrijevic óð þá upp vinstri kantinn og inn í teig, skaut en boltinn fór í varnarmann og hrökk til hægri þar sem McLagen skaut að marki frá vítateigslínu. Boltinn fór í markið, alveg út við stöng. Staðan orðin 3:1 fyrir gestina.


_ _ _

KÁRI MEIDDIST
Í aðdraganda þriðja marks Fram meiddist KA-maðurinn Kári Gautason. Bakvörðurinn tók á sprett á eftir Dimitrijevic en virtist togna aftan í læri og lá úti á kanti þegar Framarar skoruðu. Kári verður vonandi ekki lengi frá.


_ _ _

KA MINNKAR MUNINN
KA lagaði stöðuna í 3:2 á 53 . mín. þegar Birgir Baldvinsson, sem kominn var í stöðu vinstri bakvarðar, skoraði af stuttu færi eftir góða sókn. Jakob Snær Árnason óð inn í vítateig hægra megin, boltinn barst til Viðars Arnar Kjartanssonar sem skaut að marki, Viktor Freyr varði en Birgir náði frákastinu.


_ _ _

ÞRUMUSKOT Í EIGIÐ MARK
Fram náði aftur tveggja marka forystu, 4:2, á 63. mínútu með afar klaufalegu sjálfsmarki, fáeinum augnablikum eftir að Steinþór KA-maður tók markspyrnu. KA missti boltann strax, Magnús Þórðarson renndi honum inn í teig á Frey Sigurðsson sem sendi fyrir markið frá hægri og miðvörðurinn Hans Viktor Guðmundsson sem hugðist koma boltanum í burtu þrumaði honum þess í stað í eigið mark.


_ _ _

KA-MENN LIFNA VIÐ
KA hélt boltanum betur eftir þetta og hefði með smá heppni getað skorað. Viðar Örn Kjartansson fékk t.d. mjög gott færi en Framari náði að kasta sér fyrir skotið innan markteigs og KA fékk hornspyrnu. Þá varði Viktor Freyr skot Hallgríms Mars úr aukaspyrnu, svo og skot Bjarna Aðalsteinssonar og varnarmaður bjargaði í horn þegar Birgir Baldvinsson fékk boltann í kjölfarið.


_ _ _

GUÐMUNDUR REKINN ÚTAF
Guðmundur Magnússon, fyrirliði Fram, kom inná þegar 75 mín. voru liðnar en var rekinn af velli korteri síðar; nokkrum mínútum áður flautað var til leiksloka. Hann braut þá hraustlega á Birgi Baldvinssyni rétt utan vítateigs, fékk að líta gula spjaldið öðru sinni og því fór rauða spjaldið á loft. Það breytti engu þótt Framarar væru einum færri, þeir vörðust vel og fögnuðu sæti í átta liða úrslitunum.