Fara í efni
Þór

Haukar slógu Þórsara út úr bikarkeppninni

Reynir Róbertsson sækir að körfu Hauka í kvöld. Hann gerði 19 stig stig í leiknum, mest Þórsara. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar töpuðu með 28 stiga mun, 105:77, fyrir Haukum í 32 liða úrslitum bikarkeppninnar í körfubolta í Höllinni í kvöld. Við ramman reip var að draga eins og við mátti búast; bæði eru Haukar deild ofar á Íslandsmótinu auk þess sem sterka leikmenn vantaði í Þórsliðið.

Þórsarar byrjuðu reyndar afar vel og komust í 7:0. Gestirnir hrukku þá í gang og staðan var 21:17 fyrir Hauka eftir fyrsta leikhluta og 50:31 í hálfleik. Að loknum þriðja leikhluta var staðan 78:51 og lokatölur 105:77 sem fyrr segir.

Reynir Róbertsson gerði 19 stig fyrir Þór í kvöld skv. tölfræði á vef KKÍ og Smári Jónsson 12. Ekkert skal fullyrt um aðra því eitthvað vantar inn í tölfræðina á vefnum.

Harry Butler, sem hefur verið besti leikmaður Þórs í vetur, meiddist gegn Fjölni í Reykjavík á föstudaginn og var ekki með í kvöld. Reiknað er með að hann verði klár í slaginn þegar Selfyssingar sækja Þórsara heim í 1. deildinni á föstudaginn kemur. Þá var Baldur Jóhannesson ekki með í kvöld.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina á vef KKÍ.