Fara í efni
Þór

Frjálsar og fótbolti með Akureyrarvökunni

Fótbolti og frjálsar á dagskránni um komandi helgi. Akureyrarmót UFA og Kjarnafæðis Norðlenska fer fram á Þórsvellinum á föstudag og laugardag, Þór/KA á heimaleik á laugardag og karlaliðin í fótboltanum spila á útivöllum á laugardag og sunnudag.

FÖSTUDAGUR 29. ÁGÚST OG LAUGARDAGUR 30. ÁGÚST - frjálsar íþróttir

Það verður líf og fjör á Þórsvellinum síðdegis á föstudag og nær allan laugardaginn því þar fer fram Akureyrarmót UFA og Kjarnafæðis Norðlenska. 

  • Akureyrarmót UFA og Kjarnafæðis Norðlenska í frjálsum íþróttum
    Þórsvöllur frá kl. 17 á föstudag og 10:30 á laugardag.

Keppt verður í hlaupa-, kast- og stökkgreinum í aldursflokkum 10-11 ára, 12-13 ára, 14-15 ára, 16-17 ára, 18-19 ára og 20 ára og eldri. Mótið hefst samkvæmt tímaseðli kl. 17 á föstudag. Keppt verður í kast- og stökkgreinum á föstudeginum.

Keppni hefst á laugardagsmorgni kl. 10:30 með þrautabrautum fyrir tíu ára og yngri, en fyrstu keppnisgreinar aðrar hefjast kl. 11. Mótinu lýkur um kl. 17 á laugardag samkvæmt tímaseðli, en síðasta hlaupagreinin hefst kl. 16:40 gangi allt eftir áætlun.

LAUGARDAGUR 30. ÁGÚST - fótbolti

Karlalið Þórs í knattspyrnu heldur áfram baráttunni fyrir sæti í efstu deild. Með sigri á þáverandi toppliði Njarðvíkur í 19. umferðinni komust Þórsarar í toppsætið þegar þremur umferðum er ólokið. Selfyssingar töpðu á útivelli fyrir Þrótti í síðustu umferð, 2-1.

  • Lengjudeild karla í knattspyrnu, 20. umferð
    JÁVERK-völlurinn á Selfossi kl. 16
    Selfoss - Þór

Þór er með 39 stig í efsta sætinu, en Þróttur kom sér í 2. sætið með sigrinum á Selfyssingum og er aðeins stigi á eftir Þór. Svo skemmtilega vill til að þessi tvö lið mætast á heimavelli Þróttar í lokaumferðinni. Njarðvíkingar fylgja fast á hæla þessara liða, tveimur stigum á eftir Þór. Þar á eftir koma HK og ÍR með 34 stig og Keflavík 31 stig.

Leikirnir sem fimm efstu liðin eiga eftir:

  • Þór: Selfoss (ú), Fjölnir (h), Þróttur (ú).
  • Þróttur: Fjölnir (ú), HK (ú), Þór (h).
  • Njarðvík: Leiknir (h), Keflavík (ú), Grindavík (h)
  • HK: Fylkir (h), Þróttur (h), Völsungur (ú).
  • ÍR: Keflavík (h), Grindavík (ú), Fylkir (h).

- - -

Þór/KA vann sinn fyrsta leik eftir EM-hléið í síðustu umferð þegar FHL kom í heimsókn í Bogann. Sigurinn var öruggur, 4-0, og gefur liðinu vonandi kraft til að bæta við fleiri sigrum. Fram hefur tapað fimm leikjum í röð, nú síðast 2-5 fyrir Víkingi í 14. umferðinni. Þór/KA vann fyrri viðureign þessara liða í deildinni 3-1 á heimavelli Fram. 

  • Besta deild kvenna í knattspyrnu, 15. umferð
    Boginn kl. 17
    Þór/KA - Fram

Að loknum 14 umferðum er Þór/KA í 5. sæti deildarinnar með 21 stig, en Fram í 7. sætinu með 15 stig. Nú eru fjórar umferðir eftir þar til deildinni verður tvískipt og hvert stig dýrmætt í þeirri baráttu sem fram undan er um sæti fyrir ofan eða neðan strik.

SUNNUDAGUR 31. ÁGÚST - fótbolti

KA bætti mikilvægum stigum í safnið með 2-0 sigri á Fram á heimavelli síðastliðinn sunnudag og situr í 7. sætinu með 26 stig. Fram undan er jöfn og spennandi keppni um það hvaða lið lenda fyrir ofan og neðan strik þegar deildinni verður tvískipt. KA er sem stendur efsta liðið fyrir neðan strik. Eftir tvískiptingu tekur svo við það sem vænta má að verði æsispennandi barátta um að forðast fall úr deildinni því stutt er niður í fallsæti þar sem Afturelding og ÍA sitja nú með 21 og 16 stig, en þegar þetta er skrifað og birt á þriðjudegi eiga þau bæði eftir að spila sína leiki í 20. umferðinni. 

  • Besta deild karla í knattspyrnu, 21. umferð
    Samsung-völlurinn í Garðabæ kl. 17
    Stjarnan - KA

Það verður verðugt verkefni fyrir KA að sækja Stjörnuna heim, en Garðabæjarliðið er nú búið að koma sér fyrir alvöru inn í toppbaráttuna í deildinni. Stjarnan er sem stendur í 3. sæti deildarinnar með 34 stig, aðeins þremur stigum frá toppliði Vals.