Sveitarstjórnarmál
Hann vissi sjálfur hvað í manni býr
01.01.2026 kl. 15:00
Mynd: Skapti Hallgrímsson
Um hátíðarnar birtir Akureyri.net predikanir prestanna við Akureyrarkirkju og Glerárkirkju.
Séra Aðalsteinn Þorvaldsson predikaði við hátíðarmessu í Akureyrarkirkju eftir hádegi í dag, nýársdag.

Mynd: Eyþór Ingi Jónsson
Guðspjall: Jóh 2.23-25
Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
„Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.“
Á tímum óþreytandi og árvökuls auga algóriþmans og gervigreindarinnar sem les líf okkar, væntingar og hungur hverja mínútu þá setur kannski smá kuldahroll að manni við lýsingu guðspjalls nýársdags sem segir Jesú þekkja hvern mann - „Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.“
En samlíkingin við gervigreindina nær nú ekki mikið lengra, gervigreindin veit ekkert um hvað í manni býr; gervigreindin greinir bara hungur fólks og dælir inn í það hungur og þá skiptir engu hvort það sé þér hollt eður ei.
En það vakna vissulega spurning með okkur sjálfum þegar sagt er að Drottinn Jesú þekki þig og veit hvað í þér býr og spurning er - gerir þú það sjálfur - veistu hver þú ert? Það er einfaldlega hollt að taka sér stund til að íhuga aðeins þessa spurningu - nýtt ár, nýtt upphaf er oft tilefni og hvati til sjálfsskoðunar.
Hvaða orð lýsa þér? Hve mikið ertu tilbúin að ljóstra upp um sjálfan þig: við heiminn, við aðra, við sjálfan þig? Þannig mætir þú Jesú; Jesús er lítið að velta sér fyrir því hvað þér finnst um aðra eða hvað öðrum finnst um þig. Hann er kominn til að hitta þig og hann gjörþekkir þig.
Ertu fátækur? Ertu fátækur, efnalega eða andlega? Ertu bandingi, þræll? Ertu þræll einhvers, ertu fastur í neti skaðlegrar hegðunnar, þinnar eigin hegðunar eða hegðunar einhvers annars gagnvart þér, ertu þræll aðstæðna sem þú ræður ekki lengur við. Ertu blindur á líðan og aðstæður annarra, ertu blindur á eigin líðan og eigin aðstæður, ertu blindur á eigið ágæti eða galla. Bjálkar og flísar í augunum og allt það. Ertu þjáður? Veikur, sorgmæddur, kvíðinn? - Þetta er smá þunglyndislegt, ég veit, ég kem að ljósinu á eftir.
Ég er ekki að segja að allt sé að, en ég er að segja að við mætum Jesú með gleði okkar og sorgir, raunveruleg, sönn, og augljós; við mætum Jesú eins og Páll Óskar söng: „Ég er eins og ég er.“
Á sama hátt mætir Jesús okkur, og biður okkur um hið sama. Hann þarf ekki né biður okkur um staðfestingu á því hver hann er. Því að Jesús er Kristur, Drottinn vor og frelsari, upprisinn. Hann er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Hans vegna eigum við náð, miskunn og fyrirgefningu Guðs og þess vegna fögnum við jólum. Til að fagna umbreytingu heimsins en ekki stöðnun. Jólin tákna nýtt líf, í öllum krókum og kimum hins hversdagslega, í djúpum sálarinnar og hæstu dýrðarsölum á himnum.
„Hann vissi sjálfur hvað í manni býr“ segir í guðspjallinu, fullyrðing sem ég túlka einnig sem tilefni og hvatningu til sjálfsskoðunar og hvað svo? Smá saga!
Alsjáandi auga Guðs
Dreng nokkrum varð starsýnt á texta, sem hékk innrammaður á veggnum hjá ömmu hans, svona bróderuð mynd. Þar stóð: „Þú ert alsjáandi Guð.“
Amma sá að drengnum var starsýnt á myndina og það var einhver beygur í honum varðandi það sem stóð, hún sneri sér að drengnum og spurði: „Sérðu þessi orð?“ „Já,“ svaraði drengurinn. Og amma sagði: „Þessi orð merkja ekki að Guð sé stöðugt að fylgjast með því hvort þú sért að gera eitthvað rangt. Nei, þau þýða að Guð elskar þig svo mikið að hann getur aldrei af þér litið.“
Þegar þú ert í þínu sjálfsmati þá mundu þessa sögu - Jesús þekkir þig og Guð elskar þig svo mikið að hann getur aldrei af þér litið. Við erum elskuð! Það er grunnurinn að því hver við erum og mér finnst einstaklega góð skilaboð inn í nýtt ár. Við erum elskuð! Þvílík dásemd og gæði að eiga!
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.