Fara í efni
Svavar Alfreð Jónsson

Kirkjulegar hvalveiðar og ómetanlegt kvenfélag

Sveit Róðraklúbbs Æskulýðsfélags Akureyrarkirkju 1962, sem sigraði á Meistaramóti ÍSÍ í kappróðri á Akureyri. Frá vinstri: Axel Gíslason, Óli G. Jóhannsson, Pétur Jónsson, Jón Emil Karlsson og Aðalsteinn Viðar Júlíusson.

Þegar sex ungir menn byrjuðu að handgrafa grunn nýrrar kirkju á Grófargilshöfða á Akureyri haustið 1938 átti það sér langan aðdraganda. Tæpum tólf árum áður hafði bæjarstjórn samþykkt að reisa mætti kirkju á þessum stað eftir mikinn þrýsting sóknarnefndar. Þá átti bæði eftir að teikna helgidóminn á brekkubrúninni og safna fjármagni til verksins. Heila áratylft þurfti til að leysa þau verkefni.

Byggingarsjóður Akureyrarkirkju var stofnaður sumarið 1925, myndaður af frjálsum framlögum. Akureyringar þurftu ekkert síður en aðrir að sýna hugkvæmni við að afla fjár til framkvæmda við kirkjuhús og rekstrar þess. Gat sú viðleitni tekið á sig hinar skrautlegustu myndir. Þegar gamla kirkjan inni í Fjöru var orðin illa farin af leka og fúa árið 1877 og þurfti nauðsynlega fjárfrekar viðgerðir barst liðveisla úr ýmsum áttum. Haldnar voru hlutaveltur og efnt var til leiksýninga fyrir kirkjuna. Dansleikjafjelagið gaf og lánaði peninga til endurbóta á guðshúsinu inni í Fjöru.

Sóknarnefnd í útgerð

Sóknarnefnd fór ennfremur þá frumlegu leið að kaupa hlutabréf í akureyskri útgerð sem stofnuð var til að stunda hvalveiðar. Ungur Eyfirðingur, Gottskálk Sigfússon, sigldi til Danmerkur árið 1855 og þaðan til Grænlands. Þar dvaldi hann um þriggja ára skeið og lærði af þarlendum handtökin við þann veiðiskap.

Við heimkomu Gottskálks hvalfangara til Akureyrar var hinni gróðavænlegu útgerð komið á laggirnar, meðal annars með stuðningi sóknarnefndarinnar á staðnum. Tveir bátar voru smíðaðir til veiðanna og sá þriðji keyptur norðan af Sléttu. Bátarnir hétu þeim kristilegu nöfnum Óðinn, Þór og Freyr. Ráðnar voru áhafnir á þá en gróðinn af fyrirtækinu reyndist tregur.

„Þessi hvalveiðiskip voru ýmist geymd á landi uppi eða látin liggja á floti albúin, en engir veiddust hvalirnir. Þreyttust menn því á útgerð þessari, sjómenn gengu úr skiprúmi og eigendur hlutabréfanna lengdi eftir seinteknum ábata,“ segir Sverrir Pálsson í Sögu Akureyrarkirkju.

Útgerðin fór á hausinn. Kom í ljós, að „hvalaveiðifélagsútgjörð“ sóknarnefndar hafði ekki orðið kristnilífi í kaupstaðnum til framdráttar. Tap sóknarnefndar á ævintýrinu mun hafa numið allt að 90 ríkisdölum, þegar allt hafði verið reiknað.

Önnur og betri útgerð

Þess ber að að geta, að tæpri öld síðar hófst á ný útgerð á vegum Akureyrarkirkju þegar ákveðið var að smíða kappróðrabáta fyrir nýstofnaða róðrasveit Æskulýðsfélags Akureyrarkirkju. Höfuðsmiðir þeirra voru Friðrik Guðbjartsson og Skapti Áskelsson en einnig unnu Jakob Gíslason og Tryggvi Gunnarsson að verkinu. Brynjólfur Sveinsson, menntaskólakennari, valdi bátunum nöfnin Neisti og Glói. Kappróðraútgerðin varð mun farsælli en hinar kirkjulegu hvalveiðar og róðrasveitir ÆFAK unnu glæsta sigra í íþróttinni, m. a. Íslandsmeistaratitla.

Framkvæmdir við nýja Akureyrarkirkju á heimsins fegursta kirkjustæði – að mati húsameistara ríkisins – kostuðu að sjálfsögðu sitt og fúlgur fjár þurfti til að reisa mannvirkið. Ekki varð það verkefni auðleysanlegra fyrir þá sök, að þegar byrjað var á því hafði skollið á heimsstyrjöld. Hún hafði alvarlegar afleiðingar fyrir alla aðdrætti byggingarefna auk þess sem það rauk upp í verði. Engu að síður tókst Akureyringum á þeim fordæmalausu tímum að byggja á eitt fegursta og metnaðarfyllsta hús landsins.

Kostnaðurinn varð þó tvöfalt meiri en upphaflega var ætlað, fyrst og fremst vegna stríðsins. Við upphaf framkvæmdanna hafði söfnuðurinn tryggt sér einn þriðja þeirrar fjárhæðar sem áætlað var að þyrfti til verksins. Afgangurinn fékkst með ýmsum leiðum, framlögum, lánum og annarri fyrirgreiðslu.

Ómetanlegt framlag kvenna

Og þá má ekki gleyma framlagi kvenna á Akureyri. Þær höfðu bundist samtökum um að safna fé til byggingarinnar og vinna að því að hún kæmist upp sem fyrst. Það var aðaltilgangur Kvenfélags Akureyrarkirkju þegar það var stofnað 9. febrúar árið 1938. Stofnfélagar voru hvorki fleiri né færri en 250. Þessar konur reyndust dýrmætir bakhjarlar framkvæmdanna á Grófargilshöfðanum. Í bréfi sem sóknarpresturinn, Friðriks J. Rafnar, sendi vini sínum, Sigurgeir Sigurðssyni, biskupi, haustið 1939 segir hann í gamansömum tón:

„Kerlingarnar mínar (Kvenfélag Akureyrarkirkju) urguðu upp tæpar 1200 krónur á tveimur sunnudögum með merkjasölu og tombólu hér á dögunum, svo nú eiga þær rétt við 5000 kr. Vel af sér vikið á hálfu öðru ári, þrátt fyrir árferðið.“ (Saga Akureyrarkirkju, bls. 188)

Ennþá, rúmum 80 árum síðar, lætur Kvenfélag Akureyrarkirkju sér annt um kirkjuna og starfið þar. Framlag kvennanna til kirkjunnar heldur áfram að vera ómetanlegt. Pistli þessum fylgir ljósmynd af einu ótalmargra tertuhlaðborða sem kvenfélagssystur hafa útbúið í þágu safnaðarstarfsins. Enginn hefur tölu á öllum þeim kalóríum sem þar hafa verið framreiddar og veitt sóknarbörnunum bæði yndi og orku.

Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, skrifar að beiðni Akureyri.net, í tilefni 80 ára vígsluafmælis kirkjunnar sem er á morgun, þriðjudag. Þetta er önnur grein hans.

Fiðrildahrif

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
21. apríl 2024 | kl. 11:00

Kvenfélagið Hlíf

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
19. mars 2024 | kl. 06:00

Roskin hjón á Syðri Brekkunni

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
16. febrúar 2024 | kl. 06:00

Einn af 411

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
20. janúar 2024 | kl. 12:25

Bölvun eyrnamergjarins

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
20. desember 2023 | kl. 22:00

Haustátakið í fullum gangi

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
22. nóvember 2023 | kl. 06:00