Fara í efni
Súlur vertical

Fullkomin ofurhelgi SA Víkinga syðra

Ormur Jónsson skoraði tvö mörk fyrir SA í dag. Hér fagnar hann Íslandsmeistaratitlinum síðastliðið vor ásamt Unnari Hafberg Rúnarssyni til hægri og Ingvari Þór Jónssyni. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

SA Víkingar, karlalið SA í íshokkí, náði fullkominni ofurhelgi í Egilshöllinni, vann seinni leik helgarinnar gegn Fjölni í dag og hélt markinu hreinu. Ormur Jónsson skoraði tvö mörk fyrir SA, sem er á toppnum með sex stig eftir fyrstu tvær umferðir A-hluta deildarinnar. 

Eftir tvær markaveislur í fyrstu tveimur leikjum ofurhelgarinnar, 11 mörk í leik Fjölnis og SR og 13 mörk í leik SA og SR, kom aðeins eitt mark í fyrstu lotunni í leik SA og Fjölnis. Heiðar Gauti Jóhannsson vann pökkinn í dómarakasti í eigin varnarsvæði, félagar hans fóru í hraða sókn upp vinstra megin þar sem Hafþór Andri Sigrúnarson fór með pökkinn inn í sóknarsvæðið og sendi til hliðar þar sem Heiðar Gauti var mættur og negldi pökknum í netið. Falleg sókn og flott mark. Jafn og hraður hörkuleikur í gangi þó aðeins eitt mark hafi verið skorað í fyrstu lotunni.

Annar leikhluti var svipaður þeim fyrsta, áfram hörkubarátta, en engin markaveisla á dagskrá eins og í hinum leikjum helgarinnar. Akureyringar voru þó aðgangsharðari en í upphafi, áttu til dæmis 15 skot á móti tveimur í annarri lotunni. Hank Nagel skoraði annað mark SA þegar langt var liðið á annan leikhluta með hörkuskoti fyrir utan. 

Akureyringar höfðu áfram góð tök á leiknum og Ormur Jónsson skoraði þriðja mark SA með óvæntu og flottu skoti af löngu færi snemma í þriðju lotunni. Ormur var svo aftur á ferðinni þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Fjölnismenn voru þá einum fleiri síðustu fjórar mínúturnar eftir að leikmaður SA fékk tvöfalda tveggja mínútna refsingu. Fjölnismenn bættu þá í sóknarleikinn með því að taka markvörðinn út af, voru þá sex á móti fjórum, en misstu pökkinn og Ormur skoraði úr eigin varnarsvæði í autt markið. Sókn SA hófst reyndar með skemmtilegum varnartilburðum Orms þegar pökkurinn fór upp í loft eftir að Hákon Magnússon átti skot að marki SA. Pökkurinn var á leiðinni að detta á bakvið markvörð SA, en Ormur áttaði sig og náði að slá pökkinn frá með hendinni. Hann fékk svo pökkinn aftur og skoraði sitt annað mark og fjórða mark SA.

Fjölnir - SA 0-4 (0-1, 0-1, 0-2)

SA

Mörk/stoðsendingar: Ormur Jónsson 2/0, Heiðar Gauti Jóhannsson 1/0, Hank Nagel 1/0, Andri Már Mikaelsson 0/1, Bjarmi Kristjánsson 0/1, Hafþór Andri Sigrúnarson 0/1, Marek Vybostok 0/1, Matthías Már Stefánsson 0/1.
Varin skot: Jakob Jóhannesson 19 (100%).
Refsimínútur: 16.

Fjölnir

Varin skot: Tuomad Heikkonen 32 (88,9%).
Refsimínútur: 10.

Leikurinn á YouTube

Leik Fjölnis og SA var streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsins og hægt að horfa á hann í spilaranum hér að neðan.

Í efri spilaranum má fara beint inn á aðdraganda og fjórða mark SA sem lýst er hér að ofan.