Fara í efni
Súlur - tímarit Sögufélags Eyfirðinga

„Vitlaus maður, snýst ekki, snýst ekki“

Tjarnar-Jói sem um hríð var ráðsmaður á Völlum

Akureyri.net birtir annað veifið efni úr Súlum, riti Sögufélags Eyfirðinga sem kemur út árlega og færir lesendum jafnan skemmtun og fróðleik í bland. Næsta hefti kemur út í apríl og er unnið hörðum höndum að efnisöflun, að sögn Jóns Hjaltasonar ritstjóra. Hann hvetur lesendur til þess að senda efni eða hugmyndir að efni til ritnefndar. Netföngin eru jonhjalta@simnet.is, adalsteinsdottir@gmail.com, Banna@simnet.is. Einnig er hægt að hringja í síma 862-6515._ _ _

Í seinasta hefti Súlna er meðal annars að finna eftirfararandi frásögn Gísla heitins Jónssonar menntaskólakennara. Myndir eru frá Héraðsskjalasafni Svarfdæla.
_ _ _

Tjarnar-Jói segir frá lífinu í Svarfaðardal

Gísli Jónsson, menntaskólakennari og sonarsonur Gísla á Hofi, skráði eftirfarandi frásögn og hnýtti við frá eigin brjósti og setti neðanmáls: „Bolla mátti þola miklar raunir og heilsuleysi. Hún var hetja og hispurslaus í orðum. Ég spurði hana einu sinni eins og fálki: „Hvernig líður þér?“

Hún svaraði snöggt: „Ég er eins og útspýtt tíkarskinn á kamarshurð.“

Ingibjörg (Bolla), dóttir sr. Stefáns á Völlum, giftist dönskum manni, Caspar Peter Holm. Hann gekk í Svarfaðardal undir nafninu Hólm.

Mjög skipti í tvö horn um álit tengdaforeldranna á þessum framandi tengdasyni. Frú Sólveig (Frúin) sá ekki sólina fyrir honum og taldi honum flest til gildis. Sjálfur vanmat hann sig ekki og taldi sig sérfróðan í öllu sem að landbúnaði laut, vinnubrögðum þar og vélum til þess atvinnurekstrar.

Sr. Stefán hafði á Hólm (sem Frúin kallaði skilvíslega Holm) megnustu vantrú, að ekki sé sagt óbeit, og áleit hann fara með skrum og skjal og kynni ekkert betur en Svarfdælingar, nema síður væri. Þetta fann Hólm og sagði jafnan: „Allt í lagi með Frúin og Bolla, en (helvítis) prastinn er ómöguleg.“

Hjónin á Völlum í Svarfaðardal. Séra Stefán Kristinsson prófastur og prestsfrúin Sólveig Pétursdóttir Eggerz.

Nú verður af veikum mætti að reyna að endursegja Jóa leikara (alias Tjarnar-Jóa) en hann var um hríð ráðsmaður á Völlum og alger snillingur í að herma eftir sr. Stefáni. Leitaði sr. Stefán mjög til Jóa um allt er laut að forsögn búverka, en Hólm sletti sér gjarna fram í slíkt. Jóa sagðist frá eitthvað á þessa leið:

Sr. Stefán hafði keypt nýja sláttuvél og var hún enn ósamsett í kassanum. Prestur hafði árum saman haft þann sið að kveðja meðhjálpara sinn, Gísla á Hofi, til slíkra verka og hafði jafnan vel gefist. En nú vildi Hólm ólmur sýna snilld sína og fékk það með styrk Frúar og Bollu. Beið sláttuvélin þess bísperrt að sláttur skyldi hafinn.

Nú kemur gott veður, og kemur presturinn að máli við ráðsmann sinn, Jóa leikara.

„Hum, ha, komið gras, Jóhannes, fara að slá, sækja Stóra-Jarp og Rauðku.“

Jóhannes spennir hestana fyrir sláttuvélina í blíðviðrinu, en þegar þeir hefja dráttinn, bregður nýrra við: Hjól vélarinnar snúast ekki, heldur akast eftir grassverðinum og ekki langt. Þá fær prestur eitt stóra kastið, stökkur í loft upp og hrópar: „Vitlaus maður, snýst ekki, snýst ekki!“

Hleypur heim og hrópar á tröppunum: „Snýst ekki, snýst ekki, snýst ekki, vitlaus maður, sækja Gísla á Hofi!“

Frúin kemur og segir blíðlega: „Hvað er þetta, góði minn, hver er þessi vitlausi maður sem ekki snýst?“

Og nú verður prestur sjálfur vitlaus og endurtekur hróp sín: „Snýst ekki, snýst ekki, snýst ekki. Sækja strax Gísla á Hofi!“

Og Jói ráðsmaður sækir meðhjálpara húsbónda síns. Voru þá villur Hólms leiðréttar, og allt snerist, grasið féll, og flestir voru glaðir. Þó ekki Hólm, Bolla og Frúin.

Vellir í Svarfaðardal. Sólveig Eggertz, prófastsfrú í dyrunum. Ekki hefur tekist að nafngreina hina konuna.