Fara í efni
Skógræktarfélag Eyfirðinga

Sandra María farin til erlends félagsliðs

Sandra María með boltann í 4:0 sigurleik Þórs/KA á FHL í Boganum í síðustu viku. Það var síðasti leikur hennar fyrir Þór/KA, að minnsta kosti í bili. Mynd: Ármann Hinrik

Landsliðskonan Sandra María Jessen leikur ekki meira með knattspyrnuliði Þórs/KA í sumar. Hún hefur samið við erlent lið og verður kynnt þar til leiks á fimmtudaginn að lokinni læknisskoðun, eftir því sem næst verður komist. Það var fótbolti.net sem greindi fyrst frá þessu í dag – sjá hér – en ekki fæst gefið upp hvert ferðinni er heitið, ekki einu sinni til hvaða lands.

Sandra María, sem er þrítug og fyrirliði Þórs/KA, á 57 A landsleiki að baki. Hún var í byrjunarliði Íslands í öllum þremur leikjunum á Evrópumótinu í Sviss í sumar og stóð sig vel þannig að áhugi erlendis frá kemur ekki á óvart.

Hún var besti leikmaður Íslandsmótsins á síðasta ári; sigraði í árlegu kjöri leikmanna deildarinnar og var auk þess best að mati bæði fótbolta.net og Morgunblaðsins. Þá varð Sandra einnig markadrottning Bestu deildarinnar í fyrrasumar með 22 mörk í 23 leikjum.

Lék í Þýskalandi og Tékklandi

Sandra María hefur einungis leikið með Þór/KA hér á landi; á að baki 190 leiki í efstu deild Íslandsmótsins og hefur gert 121 mark. Hún var á mála hjá Bayer Leverkusen í Þýskalandi um tíma, var fyrst lánuð þangað árið 2016 og lék síðan með félaginu frá 2019 til 2021. Þór/KA lánaði Söndru Maríu einnig hluta árs 2018 til Slavia Prag í Tékklandi.

Þór/KA er í fimmta sæti Bestu deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir áður en deildinni verður skipt í tvennt; sex efstu halda áfram baráttu um Íslandsmeistaratitilinn og fjögur neðstu leika einnig innbyrðis. Þór/KA er með 21 stig, þremur minna en Valur sem er í fjórða sæti en Þór/KA á einn leik til góða. Stjarnan er í sjötta sæti með 16 stig og Fram í sjöunda sæti með 15 stig.

Leikirnir sem Þór/KA á eftir þar til deildinni verður skipt:

  • Þór/KA - Fram
  • Stjarnan - Þór/KA
  • Þór/KA - Þróttur
  • Breiðablik - Þór/KA