Fara í efni
Skógræktarfélag Eyfirðinga

Bikarleikir karlaliða og Besta deild kvenna

Bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarinn, er á dagskrá í vikunni. Þórsarar eiga útileik í dag, þriðjudag, en KA leikur heima á fimmtudag. Þór/KA á svo útileik í Bestu deild kvenna á laugardag og KA í Bestu deild karla á sunnudag. Blíða og bolti fram undan.

ÞRIÐJUDAGUR - fótbolti

Þórsarar sækja Selfyssinga heim í fyrsta leik 16 liða úrslita bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarsins. Þessi lið hafa aldrei áður mæst í bikarkeppni í meistaraflokki karla. 

  • Bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarinn, 16 liða úrslit.
    Selfossvöllur (JÁVERK-völlurinn) kl. 18
    Selfoss - Þór

Selfyssingar hafa nú þegar slegið tvö Hafnarfjarðarlið úr keppni, ÍH og Hauka. Fyrst unnu þeir ÍH 5-2 á útivelli í 2. umferð keppninnar og svo 4-0 heimasigur gegn Haukum í 32ja liða úrslitum. Þórsarar hafa spilað tvo heimaleiki í keppninni, byrjuðu á að vinna Magnamenn, 7-0, í 2. umferð keppninnar og svo ÍR 3-1 í 32ja liða úrslitum.

FIMMTUDAGUR - fótbolti

KA bíður fram á fimmtudag eftir því að spila í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar. KA á heimaleik og fær Fram í heimsókn norður. Fram sló FH út úr bikarkeppninni í 32ja liða úrslitum með 1-0 heimasigri. KA vann 4-0 heimasigur gegn KFA í 32ja liða úrslitunum.

  • Bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarinn, 16 liða úrslit.
    KA-völlur (Greifavöllurinn) kl. 18
    KA - Fram

Það er fróðlegt að skoða viðureignir KA og Fram í bikarkeppninni í gegnum árin. Alls hafa þessi lið mæst sex sinnum í keppninni, þar af fimm sinnum á Akureyri, en liðin hafa unnið þrjá leiki hvort. Fjórum sinnum hefur sigurlið úr leik KA og Fram farið alla leið í úrslitaleik keppninnar og þar af unnið bikarinn þrisvar. 

  • 1979 - Fram vann KA 3-2 á Akureyrarvelli í 16 liða úrslitum og varð bikarmeistari. 
  • 1989 - Fram vann 1-0 á Akureyrarvelli í 16 liða úrslitum og varð bikarmeistari.
  • 1992 - KA vann Fram 2-1 á Akureyrarvelli í átta liða úrslitum, fór alla leið í úrslitaleikinn, en tapaði honum.
  • 2024 - KA vann Fram 3-0 á KA-vellinum (Greifavelli) í átta liða úrslitum og varð bikarmeistari. 

LAUGARDAGUR - fótbolti

Sjötta umferð efstu deildar kvenna í knattspyrnu, Bestu deildarinnar, hefst á föstudag með leik Breiðabliks og Vals, en síðan eru fjórir leikir á laugardag. Þór/KA sækir þá lið Fram heim í Úlfarsárdalinn. Fram er í 6. sæti deildarinnar með sex stig úr fimm leikjum, en Þór/KA í 4. sæti með níu stig. Breiðablik, FH og Þróttur eru fyrir ofan, öll með 13 stig.

  • Besta deild kvenna í knattspyrnu
    Framvöllur (Lambhagavöllurinn) kl. 16:15
    Fram - Þór/KA

Bæði lið voru að spila í 16 liða úrslitum í vikunni. Þór/KA vann KR 6-0 á sunnudag og Fram tapaði í framlengdum leik fyrir Val, 2-3. 

SUNNUDAGUR - fótbolti

Leikmenn KA fá stutta hvíld eftir bikarleikinn gegn Fram á fimmtudag því strax á sunnudag er komið að mikilvægum leik í Bestu deildinni. Þeir sækja þá lið ÍBV heim á Þórsvöllinn í Vestmannaeyjum í 7. umferð deildarinnar. 

  • Besta deild karla í knattspyrnu, 7. umferð
    Þórsvöllur í Vestmannaeyjum kl. 14
    ÍBV - KA

ÍBV er í 8. sæti deildarinnar að loknum sex umferðum með sjö stig, en KA er í botnsætinu með fjögur stig.