Fara í efni
Skógarböðin

Ungar markaðskonur með heimagert hekl

F.v. Míla, Andrea og Adríana. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Ráðhústorg hefur verið breytt í markaðs- og matartorg yfir hátíðina Eina með öllu um verslunarmannahelgina. Fjölbreytt úrval af allskyns munum, handverki, matvöru og fleiru er í boði á sölubásum, en það var litríkur bás sem vakti athygli blaðamanns fyrst. Sölumennirnir eru yngri en gengur og gerist, en það kom á daginn að þar eru mættar þær Adríana, Andrea og Míla, en þær eru 11 ára. Adríana og Míla eru í Síðuskóla en Andrea er í Lundarskóla.

„Við erum með heklaðar kanínur, froska, hvali og allskonar hárklemmur, til dæmis,“ segir Adríana. Andrea bætir við að þær séu líka með allskyns hárteygjur og lyklakyppur, en það sem meira er um vert, er að þær stöllur hafa búið allar vörurnar til sjálfar. 

 

Það er mikil örtröð á básnum hjá stelpunum, en bærinn hefur verið fullur af fólki í allan dag. Mynd: RH

Lærðu að hekla á YouTube og af ömmum eða frænkum

„Við bjuggum þetta til bara heima,“ segir Míla. „Við byrjuðum að búa allt þetta til í janúar og ætluðum bara að reyna að selja þetta einhversstaðar. Þegar við sáum að það væri hægt að vera með sölubása hérna, þá skráði mamma okkur.“

„Við erum ekki að safna fyrir neinu sérstöku. Okkur finnst þetta bara svo gaman,“ segir Adríana. Þær segjast hafa lært að búa hlutina til á netinu, og fengið hjálp hjá frænkum og ömmum. Blaðamaður drífur sig að klára viðtalið, þar sem allt er að fyllast af viðskiptavinum, en stelpurnar reikna með að vera við torgið alla helgina, nema allt seljist upp!

 

Handbragðið á hekluðu dýrunum sem stelpurnar gerðu er frábært. Mynd: RH

Allskonar vörur sem stelpurnar gerðu sjálfar eru á boðstólnum. Mynd: RH