Fara í efni
Skipulagsmál

Útflutningur á vatni í fernum frá Akureyri

SÖFNIN OKKAR – 89

Frá Iðnaðarsafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.


Vatnsútflutningsfyrirtækið AKVA sf var stofnað í aprílmánuði árið 1984 af nokkrum kaupfélögum á Norðurlandi og voru bækistöðvar þess hjá Mjólkursamlagi KEA á Akureyri. Var hugmyndiin að flytja út íslenskt neysluvatn í fernum og selja. Árið 1985 var keypt innpökkunarvél frá Vestur-Þýskalandi og hafist handa við uppsetningu hennar, en sjálft vatnið var fengið úr Hesjuvallalindum. Gerður var samningur við danska fyrirtækið Icelandic Supply APS sem sérstaklega var stofnað til þess að sjá um dreyfingu AKVA vatnsins í Danmörku og þaðan áfram til annarra Evrópulanda. Fór fyrsta sendingin út í febrúarlok árið 1986 með fjóra gáma af vatnsfernum eða alls um 34 tonn. Komu tvær stærðir af fernum, 0,2l og 0,5l. Var vatnið nefnt „Natural Icelandic Aqua minerale“ en síðar „Natural Icelandic Spring Water“. AKVA nafnið hafði hins vegar tvenns konar merkingu en með beina tengingu við vatn: Annars vegar var það borið fram eins og latneska orðið aqua sem þýðir vatn og hins vegar stóð AKVA einfaldlega fyrir Akureyrarvatn.

Í fyrstu gekk salan og útflutningurinn ágætlega en árið 1988 lauk samstarfi við Icelandic Supply APS og nokkur óvissa ríkti um framhaldið. Þess í stað voru pökkunarvélarnar notaðar til þess að pakka hreinum ávaxtasafa og selja á innanlandsmarkaði. Sama ár yfirtók KEA hlut annarra í AKVA og átti þar með allt fyrirtækið en ári síðar var það gert að hlutafélagi.

Þrátt fyrir að útflutningurinn til Danmerkur stöðvaðist fóru forsvarsmenn KEA og AKVA fljótlega að leita á önnur mið og þóttu Bandaríkin vænlegasti kosturinn. Árið 1990 fóru fyrstu sendingarnar af neysluvatni í fernum til Bandaríkjanna. Þetta var langhlaup enda erfitt að markaðssetja sig í Bandaríkjunum og samkeppnin mikil. En forsvarsmenn AKVA voru yfirleitt bjartsýnir í blaðaviðtölum og var vatnið selt í um 4000 verslunum í Bandaríkjunum árið 1991. Ári síðar fjárfesti fyrirtækið í átöppunarvél til þess að tappa vatni á plastflöskur, enda var ákall frá neytendum um að flöskurnar tæku við af fernunum. Komu þær í fjórum gerðum; 0,33l, 0,5l, 1l og 1,5l.

Árið 1994 var dótturfyrirtækið AKVA USA stofnað og var með aðsetur í Bandaríkjunum, en það sá um markaðssetningu og dreyfingu vatnsins. Þrátt fyrir að margar verslanir í Bandaríkjunum sýndu vatninu áhuga og salan gengi vel þá reyndist reksturinn sífellt erfiðari og var AKVA USA næstu árin rekið með töluverðu tapi. Árið 1997 var ákveðið að selja dreyfingarréttinn á AKVA USA til bandaríska fyrirtækisins Vermont Pure og var þá vatnsútflutningi frá AKVA á Akureyri að mestu lokið. AKVA hafði frá upphafi verið tilraunstarfsemi en hafði ekki skilað tilskyldum árangri. Pökkunarvélin nýttist þó vel í aðrar drykkjarvörur og varð hinn vinsæli ávaxtadrykkur Frissi fríski til út frá AKVA hugmyndinni.

Við gerð þessa pistils var notast við ýmist gamalt fréttaefni af timarit.is, en einnig var rætt við Þórarinn E. Sveinsson fyrrum mjólkurbússtjóra KEA og framkvæmdastjóra AKVA í síma.