Fara í efni
Skipulagsmál

Sammála en þó á móti

Um daginn ræddum við í skipulagsráði um Hafnarstræti 80-82, þið vitið stóra húskjarnann sem er að rísa syðst á götueyjunni sunnan við gömlu bögglageymsluna. Þarna skal vera hótel, eitt fleiri slíkra sem hillir nú undir að rísi hér í bæ. Að þessu sinni var farið fram á að lengja hótelbygginguna til norðurs og tengja vegg við vegg að bögglageymslunni (Hafnarstræti 82). Um þetta voru skiptar skoðanir, þrír vildu samþykkja en tveir voru á móti.

Ég samþykkti en var þó sammála rökstuðningi þeirra sem spyrntu gegn. Þau bentu á að viðbyggingin lokaði annars opinni gönguleið frá Hafnarstræti yfir í Austurbrú. Þetta er stór galli, því er ég sammála. Sárabótin er að okkur, Jóni og Gunnu, verður eftir sem áður heimilt að fara þessa leið en um hótelandyrið fyrst.

Í öðru lagi nefndu þau óhæfilegt byggingarmagn sem ekki væri á bætandi. Þessu er ég líka hjartanlega sammála en úr því sem komið er finnst mér litlu breyta þó enn bætist við á þessu steypuhlaðna horni.

Og nú veltið þið auðvitað fyrir ykkur, því í ósköpunum var maðurinn að samþykkja þetta? Svarið er einfalt. Til stóð að lengja gömlu bögglageymsluna til suðurs og raska þannig herfilega hlutföllum þessarar glæsilegu byggingar. Það gat ég ekki fellt mig við og greip því tveimur höndum þessa nýju tillögu.

Já, satt er það að stundum veltir lítil þúfa stóru hlassi og gera nú sjálfsagt einhverjir stólpagrín að undirrituðum og ekki alveg að ástæðulausu, skal viðurkennt.

En eiginlega ætlaði ég alls ekki að skrifa ykkur um viðbyggingar í Hafnarstræti heldur um sjö hæðirnar við Norðurtorg og taldsvæðisreitinn en mér fannst þetta bara svo skondið - að vera sammála en samt á móti – að ég stóðst ekki mátið.

Jón Hjaltason er óháður fulltrúi í skipulagsráði Akureyrarbæjar

Gamla bögglageymslan er í efri húsaröðinni lengst til hægri. Eins og sést á myndinni breytir viðbyggingin engu Austurbrúarmegin, þaðan verður greið leið inn á útisvæðið sem myndast senn þarna á milli háhýsanna sem eru óðum að taka á sig mynd.