Íbúar við Davíðshaga vilja fleiri bílastæði
Skipulagsráð Akureyrarbæjar hafnaði á fundi sínum þann 28. nóvember sl. ósk frá húsfélögum í Davíðshaga 6, 8 og 10 um að almenn bílastæði norðan götunnar myndu tilheyra þessum húsum. Í erindi frá fulltrúum húsfélaganna kemur fram að viðvarandi bílastæðavandi sé í götunni vegna of fárra stæða við þessi hús.
Samtals eru 69 bílastæði við þessi þrjú fjölbýlishús, auk 9 stæða sem ætluð eru hreyfihömluðum. íbúðirnar eru alls 63 talsins og benda talsmenn húsfélaganna á að á mörgum heimilum séu fleiri en einn bíll í rekstri, auk þess sem margir eigi aftanívagna. Ástandið sé þannig að þau sem komi heim úr vinnu að kvöldi fái aldrei stæði fyrir bílinn og sömuleiðis sé vandamál fyrir gesti að finna stæði. Ekki bæti úr skák að áberandi hafi verið að bílum sé lagt í þessi stæði í lengri tíma, án notkunar.
Ekki í fyrsta sinn sem bílastæðamál við Davíðshaga koma til umræðu
Í afgreiðslu skipulagsráðs kemur fram að fjöldi bílastæða innan lóða við Davíðshaga sé í samræmi við þær reglur sem giltu þegar lóðunum var úthlutað. Svæðið norðan Davíðshaga sé í landi Akureyrarbæjar og eigi að nýtast öllum íbúum Hagahverfis og gestum þeirra. Sambærilegar aðstæður séu víða í bænum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bílastæðavandamál við Davíðshaga koma til kasta skipulagsráðs. Árið 2020 sendu húsfélögin við Davíðshaga 6, 8 og 10 inn ósk til ráðsins um að bílastæðum við húsin yrði fjölgað. Ekki var orðið við þeirri ósk á þeim tíma en komið var til móts við íbúana með því að útbúa almenn bílastæði norðan götunnar. Um þau stæði snerist erindi húsfélaganna núna – að stæðin norðan götunnar myndu tilheyra Davíðshaga 6, 8 og 10 og yrðu merkt þannig.
Þrátt fyrir að ósk húsfélaganna væri hafnað tekur skipulagsráð undir ábendingar um að óheppilegt sé að bílum sé lagt í landi bæjarins í lengri tíma án notkunar og mun skoða til hvaða aðgerða hægt sé að grípa varðandi það.