Fara í efni
Skipulagsmál

Erlendir veiðimenn sækja í Eyjafjarðará

Jón Gunnar Benjamínsson með nýgenginn sjóbirting sem hann landaði á svæði 2 í Eyjafjarðará í vikunni. Þessi veglega hrygna mældist 61 cm á lengd og ummálið heilir 36 cm. Henni var síðan sleppt að lokinni myndatöku.

Bleikjuveiði í Eyjafjarðará er á svipuðu róli og í fyrra, að sögn Jóns Gunnars Benjamínssonar hjá Veiðifélagi Eyjafjarðarár. Núna er sjóbirtingsveiðin að fara í gang og Jón Gunnar segir að það sé farinn að myndast dálítill kjarni erlendra veiðimanna sem koma gagngert til Íslands til sjóbirtingsveiða í Eyjafjarðará.

Jón Gunnar segir í samtali við akureyri.net að ásókn í ána hafi verið nokkuð góð og þeir veiðifélagsmenn séu bara sáttir við stöðuna. Það sem sé nýtt í veiðinni núna í ár er að svæði 4 er komið inn aftur. „Þetta var eiginlega orðið hálfnöturlegt, það voru engir veiðistaðir þar lengur. Áin ruddi sig svo harkalega fyrir nokkrum árum að það sópaðist allt burtu,“ segir Jón Gunnar. Fiskurinn hafi því ekkert stoppað lengur þarna, heldur farið bara lengra uppeftir ánni. Veiðifélagsmenn tóku sig því til og létu útbúa 7-8 veiðistaði í ánni á svæði 4 með öflugum tækjum. Erlendur Steinar Friðriksson hjá Fiskirannsóknum ehf. veitti ráðgjöf við framkvæmdina, en hann hefur unnið að sambærilegum framkvæmdum á nokkrum öðrum stöðum með góðum árangri. Jón Gunnar segir að þetta lofi góðu. „Nokkrir þessara staða halda vel af bleikju. Ég er sjálfur búinn að prófa t.d. Kolgrímastaði, þar hefur verið ágætis veiði,“ segir Jón Gunnar.

Koma gagngert til sjóbirtingsveiða

Sjóbirtingsveiðin er að detta í gang um þessar mundir og Jón Gunnar segir að veiðileyfi á sjóbirting sé eiginlega orðin aðalsöluvaran hjá veiðifélaginu, bæði á vorin og haustin. Nokkur kjarni erlendra veiðimanna er farinn að koma árlega til sjóbirtingsveiða í ánni. „Það er íslenskur strákur sem býr í Sviss sem hefur komið núna í nokkur ár með þarlenda veiðimenn, gagngert til að veiða í Eyjafjarðará,“ segir Jón Gunnar. Þeir veiða nokkra daga í röð, vilja fá veiðileiðsögn og þurfa gistingu, þannig að þessar heimsóknir hafa margfeldisáhrif í för með sér.

Jón Gunnar segir að þetta sé spennandi og áhugavert hvernig þróunin muni verða. „Í Eyjafjarðará kemstu í sjóbirtingsveiði á heimsmælikvarða. Þetta er bara eins og í Patagóníu, þetta eru þannig fiskar sem við erum að veiða hérna. Og bara fyrir brot af kostnaðinum sem kostar að veiða í þessum bestu sjóbirtingsám á Suðurlandi,“ segir Jón Gunnar Benjamínsson að lokum.