Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Starfsemi SAk ógnað – Ákall til þingmanna

SAk-fólk og þingmenn, frá vinstri: Jóna Valdís Ólafsdóttir, deildarstjóri lyfjaþjónustu, Sigurður M. Albertsson sérfræðingur í skurðlækningum, Jakob Frímann Magnússon, Ingibjörg Isaksen, Njáll Trausti Friðbertsson, Logi Einarsson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk, Guðjón Kristjánsson, forstöðulæknir lyflækninga og Friðbjörn R. Sigurðsson sérfræðingur í blóð- og krabbameinslækningum.

Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) uppfyllir ekki lög og reglugerðir um heilbrigðisþjónustu, segir í tilkynningu frá stofnuninni í kjölfar opins fundar starfsfólks með þingmönnum Norðausturkjördæmis í síðustu viku. Yfirskrift fundarins var Mikilvægasta heilbrigðisstofnunin og var fullt út úr dyrum meðan á fundinum stóð.

Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk, brýndi fyrir þingmönnunum mikilvægi þess að sjúkrahúsið geti starfað samkvæmt lögum, en ekki sé mögulegt að halda uppi starfsemi innan fjárlaga án þess að takast á við töluverða skerðingu á þjónustu sem sé mikið áhyggjuefni.

Í tilkynningunni segir meðal annars:

  • Starfsfólk SAk ítrekaði að fjárlög yrðu að vera í takti við það hlutverk SAk sem því er ætlað í lögum. 
  • Ýmis sérfræðiþjónusta sem var áður við SAk er ekki lengur í boði þar s.s. erfðaráðgjöf, lungnalækningar, augnlækningar, húðlækningar, innkirtlalækningar, inngrip myndgreiningadeildar og lýtalækningar
  • Aðrar sérgreinar, svo sem geðlækningar, barna- og unglingageðlækningar, skurðlækningar, endurhæfingarlækningar og öldrunarlækningar eru í verulegri hættu vegna skorts á fjármagni og sérhæfðum læknum.
  • Árlega þurfa rúmlega 22.000 manns af upptökusvæði SAk að leita sér lækninga til Reykjavíkur þar sem þjónusta er einungis í boði á höfuðborgarsvæðinu
  • Þetta fer gegn réttindum sjúklinga til þjónustu í heimabyggð.  
  • Illa er farið með fjármagn og í raun um bruðl að ræða.
  • Hægt væri að efla þjónustu dag- og göngudeilda SAk fengist til þess fjármagn sem myndi þá koma til móts við samfélagið og minnka bruðl.
  • Þingmenn tóku undir með starfsmönnum, hvöttu þá til dáða – næstu skref væru að óska eftir fundi með fjárlaganefnd og velferðarnefnd Alþingis.

Mynd: Þorgeir Baldursson

Tilkynningin frá Sjúkrahúsinu á Akureyri er svohljóðandi í heild:

Starfsemi sjúkrahússins ógnað. Ákall til þingmanna.

Starfsfólk SAk efndi til fundar með þingmönnum NA-kjördæmis þann 12. apríl sl. Berglind Ósk Guðmundsdóttir (D), Ingibjörg Isaksen (B), Jakob Frímann Magnússon (F), Logi Einarsson (S) og Njáll Trausti Friðbertsson (D) svöruðu kallinu og hlýddu á framsögu starfsfólks SAk um stöðu sjúkrahússins.

Fundurinn fór fram undir yfirskriftinni „Mikilvægasta heilbrigðisstofnunin“ og í ávarpi sínu brýndi Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk, fyrir þingmönnunum mikilvægi þess að sjúkrahúsið geti starfað samkvæmt lögum, en ekki sé mögulegt að halda uppi starfsemi innan fjárlaga án þess að takast á við töluverða skerðingu á þjónustu sem sé mikið áhyggjuefni.

SAk uppfyllir ekki lög og reglugerðir um heilbrigðisþjónustu

Læknafélag Íslands hefur lengi haft áhyggjur af stöðu Sjúkrahússins á Akureyri og í október á síðasta ári og gaf út ályktun þar sem fram kom að „…stjórnvöld tryggi fjárveitingar til Sjúkrahússins á Akureyri svo að hægt sé styrkja faglega stöðu sjúkrahússins sem varasjúkrahús landsins ....“.

Starfsfólk SAk ítrekaði að fjárlög yrðu að vera í takti við það hlutverk SAk sem því er ætlað í lögum. Þá var m.a. bent á að það hafi orðið mikil aukning á mannfjölda sl. áratugi auk miklum og vaxandi fjölda ferðamanna og að innviðir hafa ekki verið byggðir upp í samræmi við það.

Ýmis sérfræðiþjónusta sem var áður við SAk er ekki lengur í boði þar s.s. erfðaráðgjöf, lungnalækningar, augnlækningar, húðlækningar, innkirtlalækningar, inngrip myndgreiningadeildar og lýtalækningar auk þess sem aðrar sérgreinar s.s. geðlækningar, barna- og unglingageðlækningar, skurðlækningar, endurhæfingarlækningar og öldrunarlækningar eru í verulegri hættu vegna skorts á fjármagni og sérhæfðum læknum.

Eiga allir sjúklingar að fara suður til að leita lækninga?

Árlega þurfa rúmlega 22.000 manns af upptökusvæði SAk að leita sér lækninga til Reykjavíkur þar sem þjónusta er einungis í boði á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem er á Landspítala eða til sérfræðilækna með samning við Sjúkratryggingar Íslands. Þetta fer gegn réttindum sjúklinga til þjónustu í heimabyggð. Einnig var bent á að illa er farið með fjármagn og í raun væri um bruðl að ræða. Hins vegar væri hægt að efla þjónustu dag- og göngudeilda SAk fengist til þess fjármagn sem myndi þá koma til móts við samfélagið og minnka bruðl. Sem dæmi setti SAk upp þjónustulíkan í krabbameinslækningum sem hefur reynst vel þar sem í stað þess að senda vikulega um 50 sjúklinga ásamt fylgdarmanni suður til Reykjavíkur hafi SAk fengið einn krabbmeinslækni norður í tvo til þrjá daga í viku til að sinna þeim sjúklingahópi í samvinnu við hjúkrunarteymi SAk.

Standa þarf vörð um starfsemi SAk

Fundarmenn frá SAk samþykktu eftirfarandi ályktun:

Í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 er hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri skilgreint. Þar segir m.a. að sjúkrahúsið eigi að veita þjónustu í nær öllum sérgreinum lækninga og vera varasjúkrahús Landspítala. Því fer fjarri að sú sé reyndin í dag og það sem verra er, er að þjónustan hefur verið að dragast saman á undanförnum misserum.

Fundur starfsmanna Sjúkrahússins á Akureyri haldinn 12. apríl 2024 hvetur þingmenn Norðaustur kjördæmis til að standa vörð um sjúkrahúsið þannig að því verði gert kleift að sinna lögbundnu hlutverki sínu.

Þingmenn lýstu ánægju sinni með fundinn og tóku undir með starfsmönnum um mikilvægi þess að sjúkrahúsið þjónustaði vel íbúa á upptökusvæði sínu og uppfyllti lögbundið hlutverk sitt. Þeir hvöttu starfsmenn SAk til dáða og bentu á að næstu skref væru að óska eftir fundi með fjárlaganefnd og velferðarnefnd Alþingis.

Upptöku af fundinum má finna hér: https://youtu.be/jwGUXjr_mKw?si=FVtrxEfDTehKziz1