Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Læknar Heilsuverndar á bráðamóttöku SAk

Heilsuvernd og Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) hafa samið um að læknar á vegum fyrirtækisins starfi með reglubundnum hætti á bráðamóttöku sjúkrahússins.
 
Stefnt er að því að fastur hópur reyndra lækna, sérfræðinga og sérnámslækna í heimilislækningum á vegum Heilsuverndar komi til starfa eina til tvær helgar í mánuði og manni eitt stöðugildi læknis.
 
Heilsuvernd, sem er með höfuðstöðvar í Kópavogi, og SAk hafa verið í samstarfi að því leyti að Heilsuvernd hefur útvegað þjónustu næringarfræðings með áherslu á næringu aldraðra. Þá hefur Sjúkrahúsið annast læknisþjónustu hjá Heilsuvernd - Hjúkrunarheimili á Hlíð og Lögmannshlíð undanfarin ár en fyrirtækið rekur heimilin fyrir Sjúkratryggingar Íslands.
 
Heilsuvernd stefnir að því að koma á fót einkarekinni heilsugæslustöð á Akureyri, eins og Akureyri.net hefur fjallað um. Fyrirtækið tilkynnti fyrir nokkrum vikum um ráðningu tveggja lækna á Akureyri, Vals Helga Kristinssonar, fyrrverandi yfirlæknis á Heilsugæslustöðinni á Akureyri, og Guðrúnar Dóru Clarke, sem var heimislæknir á heilsugæslustöðinni. Á dögunum var svo tilkynnt að Jón Pálmi Óskarsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri, hefur verið ráðinn til fyrirtækisins Heilsuverndar - Heilsugæslu. Hann hættir þó ekki störfum á  SAk heldur verður í hlutastarfi þar og hjá Heilsuvernd á Akureyri.