Fara í efni
Samherji

Silfurverðlaun á NM U16 í körfubolta

Bergvin Ingi Magnússon og Pétur Nikulás Cariglia með silfurpeningana frá Norðurlandamóti U16 landsliða. Mynd: John Cariglia.
Sumarið er tími yngri landsliðanna í körfuboltanum, mörg landslið sem taka þátt í Norðurlandamóti og EuroBasket, og þar eiga Þórsarar nokkra fulltrúa. Tveir þeirra, Bergvin Ingi Magnússon og Pétur Nikulás Cariglia, unnu til silfurverðlauna á Norðurlandamóti U16 landsliða á dögunum. Tveir úr þjálfarateymi U16 landsliðsins hafa svo reyndar einnig komið við sögu hjá félaginu, þeir Baldur Már Stefánsson og Óskar Þór Þorsteinsson. U16 landsliðið tekur svo þátt í EuroBasket seinna í sumar, en mótið hefst 8. ágúst.
 
Körfuboltamógúllinn Bjarki Ármann Oddsson birti mynd af þeim félögum á Facebook og sagði þar hafa verið virkilega gaman að fylgjast með liðinu á mótinu. Hann segir Bergvin og Pétur báða leggja hart að sér og eyða jafnmiklum eða meiri tíma í að bæta leik sinn utan hefðbundinna æfinga og gaman að sjá þá uppskera eftir því. Báðir stefni þeir þó hærra. „Það verður því spennandi að fylgjast með framhaldiinu – þetta er aðeins byrjunin hjá þeim! Lítill áfangi á langri og krefjandi leið þeirra að verða frábærir körfuboltamenn,“ skrifar Bjarki Ármann.
 
Þrír Þórsarar á EuroBasket yngri landsliða
 
Þórsarar eiga svo fleiri leikmenn sem spila með yngri landsliðum Íslands á næstunni. Tvíburabræðurnir Orri Már og Veigar Örn Svavarssynir eru farnir til Grikklands með U20 landsliðinu sem tekur þátt í A-deild EuroBasket á næstunni. Mótið fer fram í Heraklios á Krít. Liðið byrjar á því að spila tvo æfingaleiki, en fyrsti leikur Íslands í mótinu verður gegn Serbíu 12. júlí. Íslenska liðið er í riðli með Serbum, Frökkum og Slóvenum, þremur gríðarlega sterkum körfuboltaþjóðum.
 

U20 landslið Íslands á leið á EuroBasket. Því miður þekkir tíðindamaður akureyri.net þá ekki í sundur, en annar þeirra er til vinstri í fremstu röð og hinn til hægri í næstöftustu röðinni. Mynd: kki.is.

Þá er Emma Karólína Snæbjarnardóttir með U18 landsliðinu í Litháen þar sem liðið tekur þátt í B-deild EuroBasket. Þar er einnig Hanna Gróa Halldórsdóttir sem lék með Þór í vetur, en kom frá Keflavík og er skráð sem leikmaður Keflavíkur í landsliðshópnum. Íslenska liðið er í riðli með Azerbaijan, Bosníu og Herzegovínu, Kósóvó, Litháen og Úkraínu. Þegar þetta er skrifað hefur íslenska liðið spilað þrjá leiki, unnið tvo þeirra, gegn Kósóvó og Úkraínu, en tapaði fyrir gestgjöfum Litháa í fyrsta leik. 

U18 landsliðið vann til silfurverðlauna á Norðurlandamótinu fyrir skemmstu.

U18 landslið kvenna er í Litháen þar sem liðið spilar í B-deild EuroBasket. Emma Karólína Snæbjarnardóttir er önnur frá vinstri í öftustu röð, en Hanna Gróa Halldórsdóttir, sem lék með Þór síðastliðinn vetur, lengst til vinstri í öftustu röð. Mynd: kki.is.

Auk ofantaldra má svo nefna að fyrrum þjálfari kvennaliðs Þórs og yngri flokka félagsins, Daníel Andri Halldórsson, er aðalþjálfari U16 kvennaliðsins. Einnig gengu tveir í U18 hópnum, þeir Eiríkur Frímann Jónsson og Jökull Ólafsson, nýlega í raðir Þórs. Eiríkur Frímann kom frá Skallagrími og Jökull frá Keflavík.