Fara í efni
Pílukast

Kimberley Dóra og Sonja Björg báðar til Vals

Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, besti leikmaður knattspyrnuliðs Þórs/KA í sumar er gengin til liðs við Val í Reykjavík. Kimberley Dóra samdi við Val til tveggja ára. Félagið tilkynnti þetta á miðlum sínum í morgun. Framherjinn Sonja Björg Sigurðardóttir er einnig farin frá Þór/KA til Vals.

Þar með eru fimm leikmenn uppaldir hjá Þór og KA í herbúðum Vals því fyrir eru Arna Sif Ásgrímsdóttir, Lillý Rut Hlynsdóttir og Anna Rakel Pétursdóttir.

Þrátt fyrir að vera aðeins tvítug hefur Kimberley þegar fest sig í sessi sem einn kraftmesti miðjumaður Bestu deildarinnar,“ segir í tilkynningu Vals. „Kimberley Dóra hefur leikið 18 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands – U19, U18, U17 og U16 – og bætti við sig sínum 19. landsleik fyrir U23 landsliðið núna í júní þegar hún lék gegn Skotlandi.

 
„Kimberley er einstaklega hæfileikaríkur leikmaður sem hefur þegar sýnt þroska langt umfram aldur. Hún býr yfir frábærum leikskilningi, varnargreind og getu til að stjórna miðjunni – eiginleikum sem passa fullkomlega við okkar leikstíl og stefnu,“ er haft eftir Gareth Owen, tæknilegum ráðgjafa Vals. Við höfum fylgst náið með framþróun hennar og hún hefur stöðugt heillað okkur með yfirvegun, stöðugleika og forystu á vellinum. Við trúum því að Kimberley hafi mikið fram að færa og muni blómstra í okkar umhverfi – við hlökkum til að sjá hana spila í rauða búningnum.“
 

Sonja Björg er 19 ára og samdi einnig til tveggja ára við Val á dögunum. Hún kom við sögu í 16 leikjum Þórs/KA í sumar. Sonja hefur leikið leiki fyrir bæði U16 og U19 ár landslið Íslands.

„Við erum ótrúleg ánægð með að hafa náð í Sonju sem er þrátt fyrir vera aðeins 19 ára gömul einn efnilegasti framherjinn í dag. Hún er kraftmikill sóknarmaður með einstaka hæfileika í að halda bolta, frábær í samspili við samherja og er beitt og örugg þegar kemur að því að klára í teignum. Við erum ótrúlega spennt að fá hana inn í þá spennandi vegferð sem við erum á í Val,“ sagði Styrmir Þór Bragason varaformaður knattspyrnudeildar Vals þegar tilkynnt var um samninginn við Sonju Björg.