Fara í efni
Óveður

Leiðindaveður, bálhvasst og úrkoma

Vindbelgur á Akureyrarflugvelli sýnir svo ekki verður um villst að lognið var á mikilli hraðferð í morgun - og það úr norðri. Vaðlaheiðin er orðin vel grá niður í miðjar hlíðar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Hvasst hefur verið á Akureyri síðan síðla nætur og þónokkur úrkoma. Appelsínugul viðvörun Veðurstofunnar tók gildi í rauðabítið og gildir þar til snemma í fyrramálið. 

Spáð er 15 til 23 metrum á sekúndu og slyddu eða snjó á heiðum og allvíða talsverðri eða mikilli úrkomu. Færð er sögð versna ört á fjallvegum og samgöngutruflanir eru líklegar. Ekki er vitað til þess að neins staðar hafi orðið tjón vegna veðursins.

  • Hvað þýðir appelsínugul viðvörun? Miðlungs eða miklar líkur eru á veðri sem valdið getur miklum samfélagslegum áhrifum, tjóni og/eða slysum og ógnar mögulega lífi ef aðgát er ekki höfð. Skerðing á samgöngum og innviðum/þjónustu tímabundin/staðbundin.

Eftir mikið logn undanfarið, þar sem gult og rautt og grænt lauf prýddi tré og runna um allan bæ má segja að Akureyri hafi breytt um svip eftir að hvessti; laufið fór á flug auk þess sem litadýrðin er ekki söm.

Öllu flugi hefur verið aflýst fram eftir degi nema hvað vél sem á að fara frá Akureyri til Tenerife um þrjúleytið er sögð á áætlun.

Margir ökumenn vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og létu setja vetrardekk undir bíla sína í gær og í morgun.

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson