Fara í efni
Óveður

Ekkert fráveitukerfi ræður við aðstæðurnar

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ekkert fráveitukerfi er hannað til að ráða við aðstæður eins og þær sem sköpuðust á Akureyri, þegar mikill sjór gekk á landi. Þetta kemur fram á vef Norðurorku.

„Neyðarstjórn Norðurorku kom saman fyrr í dag til að fara yfir stöðu mála í tengslum við veðrið sem gekk yfir svæðið fyrir hádegið. Farið var yfir ástand og virkni kerfa og mannafla á vettvangi,“ segir á vef fyrirtækisins.

„Rafmagnslaust varð um tíma sem rekja má til atviks í flutningskerfinu/byggðalínu og þar með varð straumlaust í dreifikerfi Norðurorku á Akureyri. Varaafl fyrirtækisins, þar með talið í fráveitukerfinu, kom inn og hélt þannig uppi lágmarks afköstum þann tíma sem rafmagnslaust var.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var sjávarstaða mjög há á Eyrinni og þar gekk sjór á land á háflóði um hádegisbil. Eins og áður segir þá starfaði fráveitukerfið á svæðinu eðlilega, miðað við venjubundinn rekstur en ljóst er að aðstæður sem þarna sköpuðust voru mjög óvenjulegar og sem betur fer mjög fátíðar. Ekkert fráveitukerfi er hannað til að ráða við aðstæður sem þessar þegar sjór gengur á land.

Norðurorka stefnir á að fara yfir málin með Akureyrarbæ svo fljótt sem verða má í þeim tilgangi að leita leiða til að lágmarka hættu á tjóni vegna atburða sem þessa til framtíðar.“