Fara í efni
Norðurorka

Orkusalan kaupir söluhluta Fallorku

Fallorka gangsetti nýja 3,3 megavatta vatnsaflsvirkjun á Glerárdal í október 2018. Þetta er stöðvarhúsið, í Réttarhvammi við Hlíðarfjallsveg. Mynd af vef Fallorku.

Orkusalan hefur samið við Fallorku um kaup á söluhluta félagsins en Orkusalan er leiðandi í raforkusölu til fyrirtækja og heimila á Íslandi, að því er segir í tilkynningu. „Með kaupunum styrkir Orkusalan enn frekar starfsemi sína á Norðurlandi en Orkusalan er með öfluga skrifstofu á Akureyri og er ein af virkjunum fyrirtækisins jafnframt staðsett á svæðinu.“

Eigandi Fallorku, Norðurorka, tók ákvörðun á síðasta ári að skilja sölustarfsemi Fallorku frá rekstri virkjana sinna og setja söluhlutann í söluferli. Fallorka hefur undanfarin ár átt undir högg að sækja í harðnandi samkeppni á raforkumarkaði og hefur rekstur sölusviðsins verið óhagkvæmur vegna smæðar. Með því að selja sölusvið Fallorku getur félagið einbeitt sér enn frekar að uppbyggingu og rekstri vatnsaflsvirkjana sinna.

Tvö bindandi tilboð bárust í sölusvið Fallorku og var ákveðið að ganga til samninga við Orkusöluna. Samningur milli Orkusölunnar og Fallorku felur í sér að Orkusalan taki við sölu og þjónustu til viðskiptavina Fallorku. Samhliða því er gerður langtímasamningur um raforkukaup þar sem Fallorka skuldbindur sig til að selja Orkusölunni raforkuframleiðslu sína. Þessi áform hafa verið tilkynnt Samkeppniseftirlitinu, sem hefur þau nú til skoðunar.

Viðskiptavinir Fallorku munu fá frekari upplýsingar þegar niðurstaða Samkeppniseftirlitsins liggur fyrir og þurfa því ekkert að aðhafast á þessum tímapunkti.

Eyþór Björnsson, forstjóri Norðurorku segir að þessi breyting sé skynsamleg ráðstöfun. „Við teljum að þetta verkefni eigi betur heima hjá aðila sem hefur kjarnastarfsemi í bæði sölu og framleiðslu á raforku.” Rúnar Sigurpálsson, framkvæmdastjóri Fallorku bætir við : ,,Orkusalan er sterkt fyrirtæki á afar breyttum samkeppnismarkaði og hefur mikla reynslu af því að þjóna fyrirtækjum og heimilum á landsvísu. Ég er fullviss um að viðskiptavinum Fallorku muni líða vel hjá þeim. Þá teljum við það mikinn kost að Orkusalan er með öfluga starfstöð á Akureyri.“

Magnús Kristjánsson, forstjóri Orkusölunnar segir: „Við hjá Orkusölunni höfum frá upphafi verið með starfsemi á Akureyri og höfum lengi verið stolt af því að þjónusta bæði fyrirtæki og heimili á Norðurlandi. Á Akureyri starfa þar að auki tveir af fjórum framkvæmdastjórum Orkusölunnar. Með þessum breytingum styrkjum við starfsemi okkar enn frekar og hlökkum til að taka á móti viðskiptavinum Fallorku sem bætast nú við hóp ánægðra viðskiptavina Orkusölunnar.

Orkusalan selur og framleiðir rafmagn til heimila og fyrirtækja um land allt. Virkjanir Orkusölunnar eru : Skeiðsfossvirkjun, Lagarfossvirkjun, Grímsárvirkjun, Smyrlabjargarárvirkjun, Rjúkandavirkjun og Búðarárvirkjun.

Virkjanir Fallorku eru : Glerárvirkjun I og II og Djúpadalsvirkjun I og II.