Fara í efni
Norðurorka

Keflvíkingar fóru illa með Þórsara

Ingimar Arnar Kristjánsson skorar seinna mark Þórs í dag. Þetta var langþráð stund því því Ingimar gerði þarna fyrsta markið á Íslandsmóti. Mynd: Ármann Hinrik

Þór tapaði 4:2 fyrir liði Keflavíkur á heimavelli í dag í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Með sigri hefðu Þórsarar farið á toppinn en þegar upp var staðið voru þeir ekki nálægt því heldur færðust Keflvíkingar upp í efsta sæti eftir sanngjarnan sigur.

Sólin var hátt á lofti, mælar sýndu meira en 20 stiga hita og bjartsýni ríkti á Þórssvæðinu um tvöleytið, þegar leikurinn hófst en ekki leið á löngu þar til Þórsarar sáu ekki lengur til sólar í bili. Ekki eingöngu vegna þess að leikið var inni í Boganum heldur gerðu Keflvíkingar fyrsta markið eftir tæpar fimm mínútur og skoruðu aftur eftir rúmar 20. Gestirnir voru miklu ferskari, héldu boltanum betur og það hvarflaði hreinlega að manni að Þórsarar væru dasaðir eftir mikinn hita undanfarna daga ... 

Sigfús Fannar Gunnarsson minnkaði muninn fyrir Þór eftir tæpan hálftíma en gestirnir skoruðu þriðja sinni um það bil þremur mínum síðar og fjórða markið rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.

Keflvíkingar voru miklu ferskari í fyrri hálfleiknum og tölurnar tala sínu máli – staðan 4:1 að honum loknum. Þeir héldu boltanum betur, það reyndist þeim ótrúlega auðvelt að gera mörkin fjögur og þeir voru aldrei í vandræðum með að verjast sóknartilraunum heimamanna. Það gekk hreinlega ekkert upp hjá Þórsurum, sem voru sjálfum sér mjög ólíkir.

Heimamenn voru mun kraftmeiri í seinni hálfleik en þeim fyrri, gerðu eitt mark og þau hefðu getað orðið fleiri; komu sér nokkrum sinnum í prýðilegar stöður en höfðu ekki heppnina með sér og sigur Keflvíkinga var sanngjarn.

Ármann Hinrik var í Boganum í dag með myndavélina.

ÞRJÚ MÖRK GABRÍELS
Gabríel Aron Sævarsson, 19 ára framherji Keflvíkinga, gerði þrjú mörk í leiknum. Fyrsta markið á 5. mínútu, það næsta eftir hálftíma - hann er þarna bláklæddur númer sjö að skora - og það þriðja rétt fyrir hlé. 


_ _ _

SIGFÚS FANNAR SKORAR
Ibrahima Balde átti mjög góða sendingu frá vinstri á Atla Þór Sindrason, vinstri megin í vítateignum, hann kom boltanum til hægri á Sigfús Fannar Gunnarsson sem skoraði af stuttu færi.


_ _ _

„HRINGIÐ Á SJÚKRABÍL!“
Seint í fyrri hálfleik skölluðu þeir harkalega saman Þórsarinn Ibrahima Balde og Gunnlaugur Fannar Guðmundsson, leikmaður Keflavíkur; stuttu upp og reyndu báðar að skalla boltann úti á miðjum velli en skullu saman. „Hringið á sjúkrabíl!“ var strax kallað úr herbúðum gestanna og svo fór að Gunnlaugur fór af velli og var fluttur á sjúkrahús. Balde hélt hins vegar áfram leik.


_ _ _

FYRSTA MARK INGIMARS
Þórsarar náði muninum aftur niður í tvö mörk á 74. mín. Ingimar Arnar Kristjánsson, sem kom inn á í upphafi seinni hálfleiks, fékk góða sendingu inn fyrir vörnina frá Orra Sigurjónssyni, lék á Sindra markvörð og sendi boltann laglega framhjá honum og í markið. Þetta var ánægjuleg stund fyrir þennan tvítuga framherja – hann skoraði þarna í fyrsta skipti fyrir meistaraflokk í deildarleik. Ingimar hefur gert fimm mörk í bikarleikjum en braut loks ísinn á vettvangi Íslandsmótsins í 49. leiknum.


_ _ _

RAUÐA SPJALDIÐ Á LOFT
Lítið var eftir af leiknum þegar Frans Elvarsson, fyrirliði Keflvíkinga, var rekinn af velli. Hann braut illa á Aron Inga Magnússyni, hafði áður fengið gult spjald og Sveinn dómari Arnarsson hafði því engra annarra kosta völ en að lyfta því rauða.


Leikskýrslan

Staðan í deildinni