Fara í efni
Norðurorka

Fimm fengu gullmerki Golfklúbbs Akureyrar

Fimm GA-félagar voru sæmdir gullmerki klúbbsins á aðalfundinum 10. desember sl. Þetta eru þau Viðar Þorleifsson, Heimir Finnsson, Sigmundur Einar Ófeigsson, Halla Sif Svavarsdóttir og Karl Haraldur Bjarnason. Mynd: gagolf.is

Á aðalfundi Golfklúbbs Akureyrar (GA), sem haldinn var 10. desember sl., voru veittar ýmsar viðurkenningar. Ekki voru aðeins veittar viðurkenningar vegna afreka á golfvellinum heldur einnig fyrir t.d. háttvísi og vegna ósérhlífinna starfa í þágu klúbbsins. Frá þessu er greint í frétt á vefsíðu GA.

  • Andrea Ýr Ásmundsdóttir er kvenkylfingur GA 2025. Um hana segir m.a. í fréttinni á vef GA að hún hafi hafnað í 3. sæti á Íslandsmótinu í holukeppni og í 15. sæti á Íslandsmótinu í höggleik. Hún var valin í kvennalið GSÍ sem tók þátt á EM í sumar og leiddi kvennalið GA í fjórða sæti í efstu deild á heimavelli í sumar þar sem hún vann alla sína leiki á mótinu.
  • Veigar Heiðarsson er karlkylfingur GA 2025, ásamt því að vera valinn Kylfingur GA 2025, en hann átti frábært sumar í golfinu. Meðal annars varð hann í 3. sæti á Íslandsmótinu í höggleik og datt út í 16 manna úrslitum á Íslandsmótinu í holukeppni á móti Íslandsmeistaranum. Veigar var valinn í karlalið GSÍ sem keppti á EM og spilaði með sveit GA á Íslandsmóti golfklúbba þar sem GA endaði í 4. sæti. Veigar tók m.a. þátt í US Junior Open en hann var jafnframt fyrsti Íslendingurinn til að fá boð á það sterka mót.
  • Arnar Freyr Viðarsson hlaut háttvísisbikar GA en um hann segir í fréttinni að hann sé gríðarlega skipulagður og duglegur kylfingur sem setur sér skýr markmið til að vinna að og var árangur á liðnu áru eftir því. Hann var einn af fimm aðilum frá GA sem var valinn í landsliðshóp GSÍ nú í haust.

Þá hlutu sex kylfingar afreksmerki GA en það merki fá þeir kylfingar sem verða Akureyrarmeistarar, Íslandsmeistarar eða eru valdir í landslið á árinu. Það voru þau Lilja Maren Jónsdóttir (Akureyrarmeistari) og Arnar Freyr Viðarsson, Ágúst Már Þorvaldsson, Egill Örn Jónsson, Finnur Bessi Finnsson og Patrekur Máni Ævarsson (Íslandsmeistarar golfklúbba í flokki 15-16 ára).

Einnig voru veitt silfur- og gullmerki GA á aðalfundinum. Silfurmerki GA hlutu þeir Árni Árnason, Baldur Ingi Karlsson, Benedikt Guðni Gunnarsson, Björn Axelsson, Finnur Helgason, Jón Thorarensen, Ólafur Auðunn Gylfason, Sverrir Þorvaldsson og Tryggi Jóhannsson en í frétt GA kemur fram að þessir aðilar eigi það sameiginlegt að hafa unnið óeigingjarnt starf fyrir klúbbinn í háa herrans tíð.

Einnig voru fimm gullmerki GA veitt á fundinum en þau sem það hlutu hafa áður fengið silfurmerki. Öll hafa þau unnið í þágu klúbbsins undanfarin ár og hjálpað gríðarlega mikið við hin ýmsu verkefni. Þetta eru þau Halla Sif Svavarsdóttir, Heimir Finnsson, Karl Haraldur Bjarnason, Sigmundur Einar Ófeigsson og Viðar Þorleifsson.