Fara í efni
Niceair

Fótbolti heima og úti í deild og bikar

Fjórir leikir eru fram undan í meistaraflokkum knattspyrnuliða Akureyrar í vikunni. Þór/KA á útileik í deildinni og svo heimaleik í bikarkeppninni, Þór á útileik í Lengjudeildinni og KA heimaleik gegn Íslandsmeisturunum í Bestu deild karla.

FIMMTUDAGUR  fótbolti

Þór/KA mætir FHL á útivelli í 5. umferð efstu deildar kvenna, Bestu deildarinnar, á fimmtudag. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi lið mætast í efstu deild og raunar í Íslandsmóti í meistaraflokki enda er FHL sem slíkt ungt félag og á sínu fyrsta ári í efstu deild. 

  • Besta deild kvenna í knattspyrnu, 5. umferð
    Fjarðabyggðarhöllin á Reyðarfirði kl. 18
    FHL - Þór/KA

Þó Þór/KA og FHL mætist nú í fyrsta skipti í efstu deild hafa lið að austan áður spilað í efstu deild, á þeim tíma þegar hún hét einfaldlega 1. deild. Í nokkur skipti voru lið frá Akureyri og Austurlandi samtímis í efstu deild. Lið frá Akureyri hafa því mætt liðum af Austurlandi í efstu deild kvenna 18 sinnum í efstu deild. Þar af voru átta leikir 1984 þegar Þór og KA spiluðu með Hetti og Súlunni í B-riðli 1. deildar. Tíu leikir fóru fram í efstu deild milli Þróttar úr Neskaupstað og Hattar annars vegar og Þórs og ÍBA hins vegar á tíunda áratugnum.

  • 1984 - Höttur frá Egilsstöðum og Súlan frá Stöðvarfirði léku í 1. deild kvenna og voru með Þór og KA í B-riðli deildarinnar. Þór vann riðilinn og fór í úrslitaleik Íslandsmótsins, en tapaði 1-4 fyrir ÍA.
  • 1991 - Þróttur úr Neskaupstað spilaði í 1. deild ásamt Þór og KA.
  • 1992 - Þróttur N. og Höttur bæði í efstu deild ásamt Þór.
  • 1993 - Þróttur N. í efstu deild ásamt ÍBA, sameiginlegu liði Akureyrarfélaganna.
  • 1994 - Höttur frá Egilsstöðum í efstu deild, en ekkert lið frá Akureyri.
  • 2025 - FHL, sem samanstendur úr Fjarðabyggð, Hetti og Leikni, en Fjarðabyggðarfélagið samanstendur af Þrótti úr Neskaupstað, Austra á Eskifirði og Val frá Reyðarfirði. 

FÖSTUDAGUR fótbolti

Fram undan er önnur umferð í næstefstu deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni. Þór sækir Leikni heim í Breiðholtið. Bæði lið fengu eitt stig í fyrstu umferðinni. Þór gerði 1-1 jafntefli heima gegn HK og Leiknir 1-1 jafntefli úti við Þrótt.

  • Lengjudeild karla í knattspyrnu, 2. umferð
    Leiknisvöllur (Domusnovavöllurinn) í Breiðholti kl. 18
    Leiknir - Þór

SUNNUDAGUR fótbolti

Þór/KA hefur leik í bikarkeppninni, Mjólkurbikarnum, sunnudaginn 11. maí. Liðin í Bestu deildinni koma inn í keppnina í 16 liða úrslitum og bætast í hóp sex liða sem hafa unnið sig áfram eftir fyrstu tvær umferðir keppninnar. Þór/KA fær KR í heimsókn í Bogann, en KR-ingar unnu sig upp úr 2. deild í fyrrahaust og leika nú í næstefstu deild, Lengjudeildinni. 

  • Bikarkeppni kvenna í knattspyrnu (Mjólkurbikarinn), 16 liða úrslit
    Boginn kl. 13
    Þór/KA - KR

- - -

Keppni í efstu deild karla, Bestu deildinni, er komin vel af stað og komið að 6. umferð deildarinnar. KA fær Íslandsmeistarana í heimsókn norður sunnudaginn 11. maí. Breiðablik er eitt þriggja liða á toppnum með tíu stig, en KA er í botnsætinu með fjögur stig.

  • Besta deild karla í knattspyrnu, 6. umferð
    KA-völlur (Greifavöllurinn) kl. 17:30
    KA - Breiðablik