Fara í efni
Minjasafnið á Akureyri

Spjöld úr fórum Odds Björnssonar prentara

SÖFNIN OKKAR – 97

Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.


Það er margt skrítið – á allt sér einhverjar skýringar?

Í september árið 1990 fékk Héraðsskjalasafnið afhent nokkuð af skjölum sem fundust á loftinu í Aðalstræti 17. Skjölin eru frá Oddi Björnssyni og prentsmiðju sem hann átti og rak í húsinu.

Oddur fluttist til Akureyrar árið 1901 og setti upp prentsmiðju í Aðalstræti 17. Prentsmiðjan var í norðurhluta hússins og á efri hæðinni var skrifstofa og þar bjuggu einnig prentnemar. Í suðurhlutanum var íbúð.

Oddur átti prentsmiðjuna til 1922 er hann seldi hana en keypti svo aftur 1926 og rak uns Sigurður sonur hans tók við. Prentsmiðjan var flutt í Hafnarstræti 90 árið 1934.

Eitt af því sem nýir eigendur hússins fundu á loftinu árið 1990 var bunki af spjöldum með munstri eða flúri. Spjöldin eru u.þ.b. 30 og eru 12 til 15 cm á kant en ekki öll jafn stór. Þau eru merkt Oddi, eru númeruð og á flestum þeirra eru dagsetningar eða ártöl. Ártölin eru frá 1911 til 1918.

En hvaða hlutverk eða þýðingu höfðu þessi spjöld? Oddur kom með nýjungar í prentverk s.s. munstur og fallegra letur en áður hafði þekkst. Eru þetta dæmi um það sem hann innleiddi eða er þetta bara eitthvert riss sem Oddur gerði sér til skemmtunar?

Oddur var að sögn áhugamaður um númerafræði og gullinsnið. Eru þetta dæmi um þau fræði?

Starfsfólk Héraðsskjalasafnsins hefur ekki svörin en vill gjarnan vita meira um þessi spjöld.

  • Lesendum sem kunna að luma á upplýsingum um spjöldin er bent að senda póst á netfangið herak@herak.is