Fara í efni
Minjasafnið á Akureyri

Skautabikar Elísabetar Geirmundsdóttur

SÖFNIN OKKAR – 94

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

 

Minjasafnið á Akureyri varðveitir listmuni sem Elísabet Geirmundsdóttir Listakonan í fjörunni – skildi eftir sig, en afkomendur hennar afhentu þá safninu fyrir nokkrum árum. Að þessu sinni er eitt hagleiksverk Elísabetar hér til umfjöllunar, bikar skorin út í birki.

Elísabet fæddist 16. febrúar 1915 og ólst upp í Geirshúsi, Aðalstræti 36 sem langafi hennar, Geir Vigfússon, reisti. Hún var 19 ára þegar hún giftist framtíðar eiginmanni sínum, Ágústi Ásgrímssyni. Þau voru vel kunn hvort öðru þar sem Ágúst bjó í Aðalstræti 74. Reistu þau sér hús við Aðalstræti 70 eftir teikningum Elísabetar árið 1939. Ágúst var verkamaður og Elísabet formlega séð húsmóðir alla sína ævi en hún eyddi frítíma sínum í allskyns listsköpun sem var henni afar hugleikin.

 

Elísabet var ákaflega fjölhæf; hún skar út í við, samdi lög og orti kvæði, málaði, gerði högg- og gifsmyndir og fleira. Hún var svo gott sem sjálfmenntuð í listinni en gædd ríkulegri náttúrugáfu. Eina tilsögnin sem hún fékk var á námskeiðum í höggmyndalist hjá Jónasi S. Jakobssyni og í málaralist hjá Hauki Stefánssyni. Elísabet hefur verið nefnd „Listakonan í fjörunni“, enda ól hún aldur sinn í syðsta hluta innbæjarins og í þá daga náði sjórinn nánast upp að húsunum. Listamannsnafnið festist raunar við hana áður en lést árið 1959 langt fyrir aldur fram. Sem dæmi má nefna að árið 1951 birtist grein með viðtali við Elísabetu í tímaritinu Vorið með yfirskriftinni „Listakonan í Fjörunni.“

 

Skautabikarinn glæsilegi og gifsstytta af konu í íslenskum búningi sem voru og eru enn ákaflega vinsælar. Elísabet mótaði og steypti stytturnar, og málaði eftir á.

Elísabet og Ágúst voru bæði afar flínk á skautum. Algengt var að „Pollurinn“ frysi á veturna og var þá gjarnan farið á skauta. Þau komu að stofnun Skautafélags Akureyrar 1937 og hannaði Elísabet merki félagsins. Merkið sýnir skjöld og innan í skildinum er manneskja sem hefur skautað í ísinn fangamerki félagsins, SA. Gripur vikunnar að þessu sinni tengist skautaiðkun þeirra hjóna, en um er að ræða 30 sentimetra háan bikar sem Elísabet skar út og gaf Ágústi í heiðursskyni fyrir fræknleik sinn á skautum. Elísabet var ákaflega skurðhög og skar hún út töluvert af styttum á sínum ferli. Útskurðurinn lék í höndum hennar og hafði fólk orð á því að engu væri líkara en Elísabet sæi myndirnar innan í birkidrumbinum, sem hún svo síðan skar utan af. Líkt og með önnur útskurðarverk teiknaði Elísabet fyrst bikarinn á blað áður en hafist var handa við útskurðinn, en hann var þó öllu meiri umfangs heldur en stytturnar og fékk hún því Jón Sigurjónsson smið á Akureyri til þess að renna hann. Sjálf skar hún síðan út mynstur bikarsins sem og skautamanninn efst, sem sýnir Ágúst í sveiflu. Þá er fyrir miðju beggja vegna útskorið skautapar og má vel gera sér í hugarlund að þarna séu Elísabet og Ágúst að leika listir sínar.

Frumherjar Skautafélags Akureyrar. Frá vinstri: hjónin Ágúst og Elísabet, þar næst Kristján Geirmundsson uppstoppari og bróðir Elísabetar, en lengst til hægri er Gunnar Thorarensen. Myndin er bók Jóns Hjaltasonar, Saga Skautafélags Akureyrar 1937–1997.

Það er vel við hæfi að enda þennan pistil á orðum Þóris Sigurðssonar er hann lét falla um skautahæfileika þeirra hjóna í minningargrein um Ágúst, en hann lést í árslok 1991:

Þær minningar sem nú ljóma skærast eru ef til vill minningar um Ágúst sem skautamann og ennþá er auðvelt fyrir mig að sjá þau í huganum, ljóslifandi fyrir mér, Ágúst og Elísabetu dansa skautavalsinn í birtunni af gasluktunum sem Skautafélagið notaði um 1942 til að lýsa upp skautasvellið í skammdegismyrkrinu. Þeir sem sáu þau leika listir sínar gleyma því ekki.“