Fara í efni
Minjasafnið á Akureyri

Lék markahrókurinn í skóm frá Iðunni?

SÖFNIN OKKAR – 99

Frá Iðnaðarsafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Um áratugaskeið fór fram fjölbreytt skóframleiðsla á Akureyri. Skóverksmiðjan Iðunn framleiddi skó sem seldir voru um allt land. Meira um það síðar. Eitt af því sem var framleitt var hjá Iðunni voru knattspyrnuskór, takkaskór. Slíkir skór rötuðu á fætur margra knárra knattspyrnumanna en líklega hefur enginn þeirra verið jafn hæfileikaríkur og Þórólfur Beck.

Þórólfur er einn besti knattspyrnumaður sem Ísland hefur átt og var sagður geta „gert allt við knöttinn nema að láta hann tala“. Hann var naskur að leggja upp mörk fyrir samherja sína en ekki síður að skora þau sjálfur. Þórólfur var alinn upp í KR en varð einn af fyrstu atvinnumönnum Íslands í knattspyrnu þegar St. Mirren í Skotlandi keypti hann árið 1961. Þórólfur kvaddi með markameti áður en hann hélt til Skotlands en hann skoraði 16 mörk á Íslandsmótinu í átta leikjum. Í heildina skoraði hann 46 mörk í 32 leikjum í efstu deild Íslandsmótsins 1958-1961. Þórólfur hélt uppteknum hætti og sló í gegn í Skotlandi. Það varð til þess að stórlið Glasgow Rangers keypti hann af St. Mirren fyrir metfé í desember 1964 og var talað um að þetta væri besta jólagjöf sem Rangers gæti fengið.

Hvort Þórólfur spilaði í skónum frá Iðunni þegar hann gerði garðinn frægann í Skotlandi er óvíst en alltént þá birtist hann í auglýsingu frá Iðunni árið 1962 þar sem hann skoðar nýjustu takkaskónna frá Iðunni. Kannski bendir það til þess að hann hafi leikið í Iðunnarskóm eða er þetta með fyrstu dæmum um notkun áhrifavalda á Íslandi?

Þórólfur lék síðar í Frakklandi, veturinn 1966 til 1967 með FC Rouen í samnefndri borg – Rúðuborg – þrátt fyrir áhuga liða í Englandi t.d. Tottenham og Sunderland. Hann lauk atvinnumannaferlinum með St. Louis Stars í bandarísku knattspyrnudeildinni en sneri aftur heim árið 1968 og var lykilmaður í Íslandsmeistaraliði KR það árið.

Þórólfur lék 20 landsleiki og skoraði í þeim fjögur mörk.

Takkaskóna og fjölbreytt úrval framleiðslunnar frá Iðunni má sjá á Iðnaðarsafninu á Akureyri sem er opið daglega frá 13.00 til 16.00.

Heimildir:

Dagblaðið Vísir 28.5.1986

Sigmundur Ó. Steinarsson, 100 ára saga Íslandsmótins í knattspyrnu 1-2. KSÍ, 2011.