Fara í efni
Millilandaflug frá Akureyri

Beina heimflugið frá Tene varð að martröð

Vél flugfélagsins Neos á Akureyrarflugvelli þegar Tenerife-ferðalagið var að hefjast. Mynd: FB-síða Akureyrarflugvallar.

Farþegar í beinu flugi frá Tenerife, sem bjuggust við því að lenda á Akureyri um tíuleytið í gærkvöld, skiluðu sér loks upp úr hádegi í dag - þreyttir og pirraðir. Margra klukkutíma seinkun varð á brottför frá eyjunni fögru í suðri og til að bæta gráu ofan á svart lenti flugvélin í Keflavík og rútur ferjuðu farþegana þaðan heim til Akureyrar. Þegar þær renndu inn í bæinn var liðinn rúmur sólarhringur frá því farþegar tékkuðu sig út af hótelum á Tenerife og heimferðin hófst.

Upphaflega var búist við að seinkunin yrði 6 klukkutímar

Ýmiss konar keðjuverkun virðist hafa orðið þess valdandi að upphaflegri brottför seinkaði en formlegar skýringar hafa ekki enn borist frá flugfélaginu Neos. Vélin sem átti að sækja farþegana átti fyrst að ferja eldri borgara frá Akureyri á vegum ferðaskrifstofunnar Heimsferða beint til Gran Canaria og fara til baka með hópinn frá Tenerife. Einhverra hluta vegna fór vélin til Kanarí ekki í loftið kl. 8:15 í gærmorgun eins og til stóð, heldur sex klukkustundum síðar. Þar að leiðandi seinkaði heimfluginu frá Tenerife og áætlaður heimkomutími færðist frá kl. 22 í gærkvöld til klukkan 4 í nótt.

Þrátt fyrir fyrirsjáanlega seinkun á heimfluginu þurftu farþegar samt sem áður að mæta á flugvöllinn á Tenerife á áður áætluðum innritunartíma, þannig að biðtíminn á flugvellinum varð 8-9 klukkustundir. Margir voru því orðnir verulega þreyttir og slæptir undir miðnætti, þegar loks var lagt af stað, og stefnan tekin heim til Akureyrar.

Farþegum skyndilega tilkynnt að lent yrði í Keflavík

Það vakti því vægast sagt ekki mikla gleði þegar farþegum var tilkynnt um klukkustund fyrir lendingu að ekkert yrði af því að lent yrði á Akureyri. Flugvélin myndi lenda í Keflavík. Þar var lent rétt fyrir kl. 4 í nótt og farþegar gátu þá loksins komið boðum til ættingja og vina sem höfðu rifið sig upp um miðja nótt til að taka á móti sólarlandaförunum en gripu í tómt á Akureyrarflugvelli. Skýringarnar sem farþegum voru gefnar voru þær að vegna „tæknilegra atriða“ hefði ekki verið unnt að lenda á Akureyri.

Drjúga stund tók að útvega rútur fyrir mannskapinn og það var tekið að birta af degi þegar rúturnar þrjár lögðu af stað norður. Til Akureyrar var komið um kl. 13 í dag og martraðarheimferðinni löngu var þar með loksins lokið.

Heimsferðir hafa beðið farþegana velvirðingar á þessum vandræðum en ábyrgðinni er vísað á flugrekandann, sem er leiguflugfélagið Neos. Formlegar skýringar hafa ekki borist frá Neos en nokkuð ljóst þykir að farþegar eigi rétt á bótagreiðslum vegna tafanna.