Fara í efni
Menntamál

Undirrituðu samning um stækkun VMA

Frá undirritun samningsins í VMA í dag. Frá vinstri: Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar, Þórunn Harðardóttir, sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps, Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri Hörgársveitar. Myndir: Haraldur Ingólfsson.

Í dag var undirritaður samningur um stækkun á húsnæði Verkmenntaskólans á Akureyri. Í bígerð er 1.500 fermetra bygging á norðurplani skólans þar sem fara mun fram nám í húsasmíði og bifvélavirkjun. Skólinn fagnar á þessu ári 40 ára afmæli sínu.

Það voru mennta- og barnamálaráðherra, bæjarstjórinn á Akureyri og sveitarstjórar, Dalvíkurbyggðar, Eyjafjarðarsveitar, Hörgársveitar, Svalbarðsstrandarhrepps og Grýtubakkahrepps sem undirrituðu samninginn við hátíðlega athöfn í skólanum í dag. 


Nýja viðbyggingin verður reist á núverandi bílaplani nemenda norðan við skólann og mun líklega taka um 60% af þeim bílastæðum sem þar eru til staðar. Ekki liggur fyrir hvernig bílastæðamálin verða leyst í tengslum við framkvæmdirnar. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Auk viðbyggingarinnar á norðurplani skólans verður farið í framkvæmdir í núverandi húsnæði þar sem aðstaða til náms í rafiðngreinum verður á einum stað í núverandi húsnæði byggingadeildar. Þar að auki er gert ráð fyrir að aðstaða fyrir háriðn verði stækkuð, aðstaða í matvælagreinum verði bætt og vélstjórnarhermir verði færður. Jafnframt eru áformaðar ýmsar breytingar til að bæta aðstöðu fyrir nemendur og starfsfólk sem fylgja þessum húsnæðisbreytingum. 

Í kjölfar undirritunarinnar í dag er næsta verkefni að hefja hönnunarvinnu tengda stækkuninni og breytingum á núverandi húsnæði ásamt því að setja upp tímalínu fyrir verkefnið, að því er fram kemur í tilkynningu ráðuneytisins. Þar segir einnig að þessi stækkun sé hluti af átaki stjórnvalda til að bæta aðstöðu í framhaldsskólum þar sem fram fer nám í iðn- og starfsgreinum með það að markmiði að fjölga nemendum í iðn- og starfsnámi.


Skjáskot úr myndbandi af hringflugi yfir Verkmenntastkólann á Akureyri. Rauði kassin sýnir um það bil hvar nýja viðbyggingin mun rísa. 

Nánar á Akureyri.net í kvöld eða á morgun.