Fara í efni
Menntamál

Nýtt nám um ráðgjöf fyrir fólk með heilabilun

Kristín Þórarinsdóttir, dósent við Heilbrigðis- viðskipta- og raunvísíndasvið Háskólans á Akureyri. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Það er náttúrulega mikið áfall að greinast með heilabilun,“ segir Kristín Þórarinsdóttir, dósent við Heilbrigðis- viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri. „Í hönd fer oft mjög krefjandi tímabil, bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og aðstandendur, og í stefnumótun Heilbrigðisráðuneytisins fyrir nokkrum árum var tekin ákvörðun um að bregðast yrði við aukinni þörf á stuðningi við fólk sem greinist með heilabilun og aðstandendur þeirra.Kristín segir að helsta ástæðan fyrir aukningu, sé að fleiri eru í hópi eldra fólks og við að eldast sem þjóð. Fólk lifir lengur og lifir gjarnan lengur með flókna sjúkdóma. 

2023 er staðan sú að heilabilun er sjöunda algengasta dánarorsökin á heimsvísu og ein helsta orsök fötlunar og ósjálfstæðis meðal eldra fólks.

Fjöldi greininga á heilabilun hefur aukist mikið, og til þess að bregðast við því er stefnt að því að mennta ráðgjafa sem sérhæfa sig í ráðgjöf og stuðningi við þennan hóp. Á alþjóðavísu stefnir í að fjöldi fólks með heilabilun muni nær þrefaldast til ársins 2050. 2023 er staðan sú að heilabilun er sjöunda algengasta dánarorsökin á heimsvísu og ein helsta orsök fötlunar og ósjálfstæðis meðal eldra fólks.

Ný námsleið var kynnt á dögunum, sem framhaldsnám á meistarastigi í hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri, sem kallast 'Ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun'. Námið er þverfræðilegt í samstarfi við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands. „Heilbrigðisráðuneytið leitaði til Háskólans á Akureyri í janúar 2020, varðandi það að undirbúa og skipuleggja námsskrá fyrir þetta nám.“ Kristín leiddi vinnuhópinn sem þróaði þetta nýja nám. „Við fengum síðan veglegan styrk úr Samstarfssjóði Háskóla, 69 milljónir, til þess koma náminu af stað og kenna það fyrstu árin,“ segir Kristín. 

Það er gríðarlega mikilvægt, að fjölskyldurnar og fólk með heilabilun fái stuðning og það strax í greiningarferlinu,“ segir Kristín. „Fagfólkið sem við munum útskrifa úr þessari nýju framhaldsnámsleið, getur m.a. unnið hjá heilsugæslum, í minnismóttökum á Landakoti og á Sjúkrahúsinu á Akureyri, í heimahjúkrun, félagsþjónustu, og á hjúkrunarheimilum.

Danir eru til fyrirmyndar í málefnum fólks með heilabilun. Kristín segir að þegar einstaklingur greinist með heilabilun þar í landi, sé strax í boði að fá heimsókn frá ráðgjafa, sem fylgir svo þessum einstaklingi og aðstandendum áfram og er þeim stuðningur í þeim erfiðu verkefnum sem bíða. Námið sem Kristín og hennar kollegar hafa hannað, er einmitt að fyrirmynd frá Danmörku og Englandi. 

Nemendur okkar væru þá þessir 'málastjórar', eins og við köllum það, og væru með sína skjólstæðinga til frambúðar

„Einstaklingur sem er komin/n með svona ráðgjafa, getur þá haft beint samband við hann með hvers kyns spurningar og vangaveltur,“ segir Kristín. „Þetta eykur öryggi og lífsgæði, og minnkar álag á önnur svið heilbrigðiskerfisins. Nemendur okkar væru þá þessir 'málastjórar', eins og við köllum það, og væru með sína skjólstæðinga til frambúðar. Þetta er partur af aðgerðaráætlun Heilbrigðisráðuneytisins, og þess vegna vorum við styrkt til þess að gera þessa námsleið að veruleika.“  

Kristín segir að skráning í námið fari ágætlega af stað, en að hámarki verði teknir inn 20 nemendur sem hefja þá nám í haust. „Námið er sett þannig upp að það er tekið á tveimur árum að minnsta kosti, en það er 60 einingar í heildina og hannað þannig að hægt sé að taka það samhliða vinnu,“ segir Kristín. „Á meðan við bíðum eftir fyrstu útskrifuðu ráðgjöfunum í málefnum fólks með heilabilun, er hægt að sækja ráðgjöf hjá Alzheimer-samtökunum, sem er sérstaklega styrkt af Heilbrigðisráðuneytinu vegna þess verkefnis.“