Fara í efni
Listasafnið á Akureyri

Lærðu að fljúga – lítil bók en mikill metnaður

SÖFNIN OKKAR – 98

Frá Flugsafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Í tilefni af því að í ár eru 80 ár liðin frá því að flugnám hófst á Akureyri er við hæfi að safngripur vikunnar tengist Flugskóla Akureyrar og einum stofnanda hans.

Safngripurinn sem um ræðir er lítil bók sem lætur ekki mikið yfir sér og heitir einfaldlega Lærðu að fljúga. Bókin var gefin út árið 1944 af einum af þremur stofnendum flugskólans, Árna Bjarnarsyni, en hún var skrifuð af Frank A. Swoffer og var fyrst gefin út á ensku 1929. Helgi Valtýsson þýddi bókina og Agnar Kofoed Hansen flugmaður og síðar flugmálastjóri las yfir og skrifaði formála.

Mikill metnaður var lagður í að þýða bókina á íslensku og aðdáunarvert hversu vel hefur tekist til, þó margt hafi ekki náð fótfestu. Auk þess eru fjölmargar skýringarmyndir í bókinni.

Flugskóli Akureyrar var stofnaður 7. júní 1945. Stofnendur skólans voru þeir Árni Bjarnarson bókaútgefandi, Gísli Ólafsson lögregluþjónn og einn af stofnendum Flugfélags Akureyrar, og Steindór Hjaltalín útgerðarmaður. Þeir keyptu flugvél af gerðinni de Havilland Tiger Moth, TF-KAD, og var hún skráð hér á landi 7. september 1945. Um mánuði síðar hófst kennslan en hún fór fram á Melgerðismelum.

de Havilland DH.82C Tiger Moth TF-KAD Flugskóla Akureyrar á Melgerðismelum 1945 eða 1946. Úr safni Árna Bjarnarsonar.

Leyfi fyrir nafninu, Flugskóli Akureyrar, fengu þeir þó ekki fyrr en í apríl 1946, þegar bæjarstjórn Akureyrar gaf leyfi fyrir nafngiftinni með 10 atkvæðum gegn einu.

Áhugi á flugi var mikill á Akureyri og skólinn gekk vel framan af. Á fyrsta ári skólans stunduðu 30 nemendur nám við skólann og níu luku sólóprófi. Kennsluflugvélunum fjölgaði og starfsemi skólans efldist auk þess sem skólinn sinnti leiguflugi. Rekstur skólans varð þremenningunum þó þungur, m.a. vegna bensínskömmtunar, og hætti hann starfsemi árið 1948.

Tryggvi Helgason flugmaður og stofnandi Norðurflugs hóf aftur flugkennslu á Akureyri um 1960 og Fugfélag Norðurlands (FN) tók við keflinu þegar það var stofnað á grunni Norðurflugs árið 1975. Lengi vel sá Vélflugfélag Akureyrar um flugskólann fyrir hönd FN og undir lok síðustu aldar komst hann í í eigu Kristjáns Víkingssonar og er enn. Mikil gróska er í flugskólanum og eru áhugasamir hvattir til að kynna sér námið á heimasíðu skólans www.flugnam.is.

Að lokum má til gamans geta að nafn skólans, sem upphaflegir stofnendur fengu leyfi fyrir árið 1946, var gefið áfram til FN með formlegum hætti árið 1990. Sigurður Aðalsteinsson framkvæmdarstjóri FN sendi Árna og Gísla bréf haustið 1987 og fór þess á leit við þá félaga að þeir leyfðu flugfélaginu notkun nafnsins.

Heilum þremur árum síðar, í mars 1990, svöruðu þeir bréfinu og veittu FN góðfúslega leyfi fyrir því að nota nafnið, eða eins og segir svo fallega í bréfinu:

„Þar sem starfsemi ykkar þjónar upphaflegri stefnu okkar, að gefa sem flestum tækifæri til að læra og iðka flug hér í Eyjafirði, er okkur kært, að nafnið sem við völdum á sínum tíma verði áfram notað fyrir þessa starfsemi. Jafnframt viljum við, að nafn þetta verði alltaf tengt stofnun hins fyrsta flugskóla hér, sem hóf starfsemi sína 7. júní 1945.“