Fara í efni
Listasafnið á Akureyri

Kynnast Akureyri í gegnum bragðlaukana

Leiðsögumaður Akureyri Food walk segir ferðafólki frá bænum og íslenskri matarmenningu á fyndinn og skemmtilegan hátt með stoppum á fimm veitingastöðum. Gangan á milli veitingastaðanna er í heildina um 2 km löng.

Í sumar gefst ferðafólki á Akureyri tækifæri til að upplifa bæinn í gegnum bragðlaukana í gegnum Akureyri Food Walk. Um er að ræða ferska viðbót í afþreyingu fyrir ferðamenn á Akureyri en sambærilegir matargöngutúrar hafa verið í boði í höfuðborginni hjá Reykjavík Food Walk og verið mjög vinsælir.

Það er Dagur Lárusson sem er maðurinn á bak við Akureyri Food Walk en hann hefur undanfarin ár starfað sem leiðsögumaður og samfélagsmiðlastjóri hjá Reykjavík Food Walk. „Reykjavík Food walk-túrinn hefur gengið mjög vel og er sá vinsælasti sinnar tegundar á TripAdvisor, með hæstu einkunnir meðal matargöngutúra í heiminum og er með yfir 15.000 fimm stjörnu meðmæli, segir Dagur sem mun í sumar bjóða ferðafólki á Akureyri upp á sambærilegar matargöngur í norðlensku umhverfi. Segist hann hafa fulla trú á verkefninu enda hafi matargöngutúrarnir í Reykjavík verið gríðarlega vinsælir.


Dagur hefur fulla trú á því að matargöngur eigi fullt erindi á Akureyri eins og í höfuðborginni. Matartúr Reykjavík Food Walk er með mjög góða dóma á TripAdvisor. 

Norðurlandið spennandi kostur

Að sögn Dags hafi eigandi Reykjavík Food Walk, Daníel Andri Pétursson, skoðað möguleikann á því að bjóða upp á matargöngur á Akureyri á sínum tíma en fallið frá þeirri hugmynd og ákveðið að einbeita sér að Reykjavík. Degi hafi hins vegar fundist Norðurlandið spennandi kostur og þar sem hann hafi lengi langað til að gera eitthvað sjálfur tengt ferðaþjónustunni ákvað hann að láta slag standa og útfæra hugmyndina á Akureyri. Hann segist hafa fengið hjálp frá Daníel Andra við að koma verkefninu á koppinn fyrir norðan og er allt klárt fyrir sumarvertíðina. Búið er að ganga frá samningum við veitingastaði í bænum og nú þegar eru komnar bókanir fyrir sumarið.

Lamb, fiskur, pylsa og ís

Matargöngutúrinn tekur um þrjár klukkustundir og hefst ferðin við Menningarhúsið Hof. Þaðan leiðir Dagur gesti í gegnum miðbæ Akureyrar þar sem þeir heimsækja fimm veitingastaði á göngunni og er stoppað í hálftíma á hverjum stað. „Maturinn sem boðið er upp á  er hefðbundinn íslenskur matur, lamb, fiskur og annað slíkt, en alltaf með nútímalegum snúningi,“ segir Dagur. Á meðan gengið er á milli staða segir Dagur frá Akureyri og matarmenningu Íslendinga á léttum og skemmtilegu nótum. Meðal veitingastaða sem stoppað er á í túrnum eru Kaffi Ilmur, Eyja, Múlaberg, Rub23, Pylsuvagninn, Kaffi LYST og Brynja.  „Við höldum þessu alltaf á léttum og skemmtilegum nótum og fáum fólk til þess að hlæja. Það er svona lykillinn að þessu í Reykjavík og ég ætla að vera með sama á Akureyri,“ útskýrir Dagur.


Pylsuvagninn í göngugötunni er eitt af stoppunum í matargöngutúrnum.

Ekta íslensk upplifun

Dagur gerir ráð fyrir að flestir viðskiptavinir verði erlendir ferðamenn, sérstaklega úr skemmtiferðaskipunum, en vonast einnig til að Íslendingar á ferð um landið nýti sér túrinn sem nýja og öðruvísi leið til að upplifa Akureyri. „Þetta er  fyrir alla sem vilja upplifa bæinn með öðrum augum. Eins og í Reykjavík vil ég bjóða fólki upp á ekta íslenska upplifun, en með fersku og skemmtilegu ívafi.“ Túrarnir verða í boði alla virka daga kl. 10:30 og 16:00, og um helgar kl. 10:30 út september. Ferðin kostar 17.000 krónur á mann. Bókanir fara fram á heimasíðunni akureyrifoodwalk.is.