Fara í efni
Listasafnið á Akureyri

Bað um góða vinnumenn – vildi ekki ónytjunga

SÖFNIN OKKAR – 102

Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Skjal dagsins er bréf sem Brynjólfur Þorsteinn Arnljótsson skrifaði til Jóns Jónatanssonar 7. desember 1891.

Þorsteinn (1865-1921) var bónda- og prestsonur á Sauðanesi í Norður-Þingeyjarsýslu, elsti sonur sr. Arnljóts Ólafssonar og Hólmfríðar Þorsteinsdóttur. Þorsteinn hefur líklega verið í forsvari fyrir búskapinn enda biður hann í bréfinu Jón um að vista til sín einn eða tvo góða vinnumenn, bara góða eða í góðu meðallagi. Þorsteinn segist ekkert hafa að gera við ónytjunga og lofar góðu kaupi, nægum mat og svefni og að vinnuálagið verði ekki meira en svo að þeir haldi holdum og kröftum. Bréfið er hið skemmtilegasta aflestrar og er í heild sinni eftirfarandi:

Sauðanesi 7da desember 1891.

Góði vinur !

Ég man ekki hvort við þéruðumst eða þúuðumst, upp á góða og gamla íslensku, seinast þegar við sáumst, en fyrst þegar við þekktumst höfum við sjálfsagt talast við eins og sveitungar og almúgamenn, og með þínu góða leyfi ætla ég að gera það eins núna.

Í þetta skipti skrifa ég eins og allir letingjar, bæn fyrir sjálfan mig. Sigurlaug er líka sjálfsagt búin að segja þér frá Sauðaneslífinu, svo þú færð ekki meira núna. Mitt „leben“ er heldur ekki svo mikið né merkilegt, að það sé til að setjast í bréf.

Viltu eða geturðu gert svo vel að vista hingað 1 eða 2 góða vinnumenn, bara góða, eða í góðu meðallagi. Því ónytjungar hafa ekkert hingað að gera, hvorki okkar eða sjálfra sín vegna. Þeir skulu fá gott kaup og vel borgað, og hafa nóg að éta og sæmilegan svefn, og ekki meira að gera en svo að þeir haldi holdum og kröftum. En samt kunna menn hér betur við að vel sé unnið, og duglegir karlmenn og kvenmenn þurfa aldrei að vera hræddir um að þeim verði ekki eins gott að vera hér og annarsstaðar, séu þeir ekki einhverjir gallagripir og ribbaldar. Því hér er fólk heldur geðjað, og vill að menn hafi mannasiðu.

Þér er óhætt að ábyrgjast öllum að hér sé góð matarvist! og sæmilega skemmtilegt heimili og engin vanskil á kaupgjaldi. Ef kaupgjald lækkar í Eyjafirði, eins og ekki er ólíklegt, af því markaðurinn brást, útlenda varan hækkar, og sú innlehda selst ekki, þá ætti ca. 120 kr. kaup að vera sæmilegt. Annars máttu bæta við það, sé maðurinn vel duglegur og þægur og kurteis. Góðan fjármann vildum við helst, og sé hann sjómaður líka, þá skemmir það ekki.

Mönnum ætti líka að þykja gaman að kynnast nýjum mönnum og nýjum sveitum, og þeir geta verið vissir um að hér fyrir austan er bæði fallegt og björgulegt. Felli þeir sig ekki við að vera hér til lengdar, þá er þeim innanhandar að komast aftur heim í gömlu kotin, því þeir [geta] fengið bæði gufuskip og hesta.

Getir þú ekki fengið neinn sérlega góðan fjármann, þá reynir þú bara að fá duglegan mann til sumarverka og almennilegan í viðbúð, og það er óhætt að hafa þá tvo. Ef þarf, þá máttu hækka kaupið, svo það verði ekki til fyrirstöðu. Þér er óhætt að bjóða eins og best er boðið þar, ef á þarf að halda, en náttúrlega ekki upp á eintóm „flottheit.“

Gætirðu fengið góðan ungling um fermingu fyrir smala, þá væri það ágætt. Hér er létt smalamennska á láglendi og brúkaðir hestar við hana að öðrum þræði.

Þú gerir svo vel að gera þitt besta í þessu.

Hér er að mestu snjólaust og víst óvíða farið að taka lömb.

Fyrirgefðu blaðið og bænirnar. Með bestu óskum til þín og þinna.

Þinn einlægur

Þórsteinn Arnljótsson.

Viðtakandinn, Jón Jónatansson (1853-1945), var þá ráðsmaður á búi Kvennaskólans á Syðra-Laugalandi og bjó auk þess á hluta jarðinnar. Jón flutti að Öngulsstöðum 1894 og bjó þar til 1936.

Bréfið er úr afhendingu sem kom til okkar fyrir skömmu síðan og er úr dánarbúi Birgis Þórðarssonar (1934-2023) á Öngulsstöðum. Meðal þeirra skjala sem eru í afhendingunni er bréfasafn áðurnefnds Jóns en hann var föðurbróðir Birgis. Birgir var búinn að skrifa upp flest bréfanna.