Núvitund í smájökli á Listasafninu

Mætti bjóða þér að taka þér hvíld frá amstri dagsins og hverfa til jökla í stutta stund? Ný innsetning á Listasafninu, Verkið Smájökull – Friðsælt skjól í tíma og rúmi er skynupplifun og hvíldarrými, sem Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir hefur komið fyrir á safninu. Smájökullinn verður uppi í tíu daga. Þarna gefst tækifæri til þess að nota ímyndunaraflið og upplifa sig hátt meðal fjalla í framandi náttúrufyrirbæri sem alla jafna er ekki aðgengilegt, segir í tilkynningu frá Arnbjörgu.
Sameinuðu þjóðirnar útnefndu 2025 alþjóðlegt ár jökla, friðar og skammtafræða. Í nærumhverfi okkar er að finna 170 smájökla, nánar tiltekið hér norðanlands, á Tröllaskaga.
Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir starfar sem listakona, jóga- og gongkennari á Akureyri, en hefur einnig fengist við listrænt samstarf barna og fullorðinna af ýmsum toga. Hún lauk fornámi og tveimur árum í grafískri hönnun í Myndlistaskólanum á Akureyri og lærði iðjuþjálfunarfræði í Háskólanum á Akureyri.
Gestir eru hvattir til að upplifa núvitund með því að skynja og hvíla sig inni í verkinu.