Fara í efni
Körfuknattleikur

Viðar skoraði en KR „stal“ stigi í blálokin

Viðar Örn Kjartansson skoraði seinna mark KA í kvöld. Þetta er fyrsta markið sem hann gerir fyrir félagið. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn voru aðeins nokkrum augnablikum frá því að vinna KR-inga og næla þar með í þrjú dýrmæt stig í Bestu deildinni í knattspyrnu í Reykjavík í kvöld. Þeir urðu þó að gera sér jafntefli og eitt stig að góðu því heimamenn jöfnuðu, 2:2, um það bil hálfri mínútu áður en flautað var til leiksloka.

Handrit kvöldsins hefði verið nánast fullkomið af sjónarhóli KA-manna hefðu þeir náð að koma í veg fyrir jöfnunarmarkið. Ekki bara vegna sigurs og þriggja stiga heldur kom að því í kvöld – loksins, loksins – að Viðar Örn Kjartansson skoraði. Lengi hafði verið beðið eftir því að þessi mikli markaskorari kæmist á blað og biðinni lauk á 71. mínútu. Hann skoraði þá með laglegu skoti vinstra megin úr vítateignum framhjá Guy Smit markverði KR eftir góða sendingu Hallgríms Mar Steingrímssonar.

Leikurinn var undarlega kaflaskiptur; KA-menn áttu mjög erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik þegar KR-ingar voru miklu betri en í seinni hálfleik snerist dæmið við því gestirnir að norðan tóku algjörlega völdin.

KR komst í 1:0 á 19. mínútu þegar Benóný Breki Andrésson skoraði eftir sendingu Luke Rae og KR-ingar hefðu getað bætt að minnsta kosti einu marki við í fyrri hálfleik. Strax í upphafi þess síðari fóru heimamenn svo mjög illa að ráði sínu þegar þeir komust í góðu stöðu, þrír gegn einum varnarmanni inni í vítateig en klúðruðu tækifærinu.

Fljótlega eftir þetta hrukku KA-mann í gang og nánast völtuðu yfir andstæðingana það sem eftir lifði leiksins.

Daníel Hafsteinsson jafnaði leikinn þegar 15 mín. voru liðnar af seinni hálfleik. Harley Willard náði boltanum af miklu harðfylgi rétt áður en hann fór aftur fyrir endamörk, eftir langa sendingu fram völlinn, og þrumaði fyrir markið þar sem Daníel var ákveðnari en KR-ingar og skoraði af stuttu færi.

Hið sögulega mark Viðars Arnar kom svo á 71. mínútu sem fyrr segir. Hallgrímur Mar fékk boltann fyrir utan vítateiginn og sendi hárnákvæmt inn fyrir vörnina, Viðar beið þar til á réttu augnabliki til að vera ekki rangstæður, og sendi boltann í fjærhornið framhjá Smit markverði sem kom út á mótinu honum.

Litlu munaði að Harley Willard kæmi KA í 3:1 þegar kortér var eftir, þegar hann skallaði boltann í þverslá og niður. Ekki er vafi á að með marki á þeim tíma hefði Harley tryggt KA sigurinn.

Á síðustu mínútunum lifnaði aðeins yfir KR-ingum á ný; heimamenn minntu á að þeir væru enn með í leiknum. Fyrst hamraði Benóný Breki boltann yfir mark KA úr dauðafæri eftir langa sendingu fram völlinn og þegar langt var liðið á þann tíma sem bætt var við 90 mínúturnar, vegna meiðsla og skiptinga, náði Finnur Tómas Pálmason að jafna. KA-menn gleymdu sér þá illilega í vörninni; KR fékk aukaspyrnu úti á velli, boltinn var sendur inn í vítateig hægra megin og Aron Sigurðarson skallaði hann inn á markteig, þar sem Finnur Tómas og annar KR-ingur voru dauðafríir. Gríðarlega svekkjandi endir fyrir KA-strákana eftir mjög góðan seinni hálfleik.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni