Tvær akureyrskar með kvennalandsliðinu í dag
Akureyringar eiga tvo fulltrúa í A-landsliðshópi kvenna í knattspyrnu í tveimur umspilsleikjum við landslið Norður-Íra fyrir Þjóðadeild UEFA. Sandra María Jessen, sem hefur farið frábærlega af stað í haust með nýja liðinu sínu, 1. FC Köln í Þýskaland, er í landsliðshópnum sem fyrr. María Catharina Ólafsdóttir Gros, fædd 2003 og fyrrum leikmaður Þórs/KA sem nú leikur með Linköpings FC í Svíþjóð, var einnig valin í A-landsliðshópinn í fyrsta skipti fyrir þessi verkefni.
Það er ekkert verkfall hjá kvennalandsliðinu því fyrri leikurinn fer fram í Ballymena á Norður-Írlandi í dag og hefst kl. 18 að íslenskum tíma. Seinni leikurinn verður á Laugardalsvelli á þriðjudag og hefst einnig kl. 18. Leikirnir verða báðir í beinni útsendingu á Rúv 2 og hefst útsending með Stofunni kl. 17:30.
Ísland endaði í 3. sæti síns riðils í A-deild Þjóðadeildar UEFA, en Norður-Írland í 2. sæti síns riðils í B-deildinni. Sigurvegari úr þessum tveimur viðureignum leikur í A-deild í undankeppni HM 2027. Dráttur fyrir undankeppni HM fer fram 4. nóvember.